Fara í efni
KA

Julia Bonet og Alex Cambray best hjá KA

Þau voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona KA árið 2024; Alex Cambray Orrason lyftingakappi og blakarinn Julia Bonet Carreras. Myndir af vef KA.

Julia Bonet Carreras  úr blakdeild var í gær kjörin íþróttakona KA fyrir árið 2024 og Alex Cambray Orrason úr lyftingadeild var kjörinn íþróttakarl KA 2024. Niðurstaðan var tilkynnt á afmælishátíð félagsins í KA-heimilinu en í vikunni sem leið voru 97 ár frá stofnun Knattspyrnufélags Akureyrar.

Greint er frá kjörinu á vef KA. Venja er að fyrrverandi formenn félagsins afhendi viðurkenningar og að þessu sinni mættu þau Hermann Sigtryggsson og Hrefna G. Torfadóttir, ásamt núverandi formanni, Eiríki S. Jóhannssyni.

Á vef KA er upplýst að Böggubikar pilta hlaut að þessu sinni Jens Bragi Bergþórsson, handboltamaður, og Böggubikar stúlkna Kristjana Ómarsdóttir, einn Evrópumeistara Íslands í hópfimleikum blandaðra liða í unglingaflokki.  Viðurkenningin er veitt pilti og stúlku á aldrinum 16-19 ára sem þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega. KA-menn velja einnig lið ársins og þjálfara ársins en niðurstaðan úr því vali hefur ekki verið birt á vef félagins.

Tveir fyrrverandi formenn KA, Hermann Sigtryggsson og Hrefna G. Torfadóttir,  Drífa Ríkarðsdóttir, sem varð önnur í kjörinu, Julia Bonet Carreras, íþróttakona KA 2024, Anna Þyrí Halldórsdóttir, sem varð þriðja, og Eiríkur S. Jóhannsson formaður KA.

Þær sem tilnefndar voru í kjöri íþróttakonu KA voru:

  • Anna Þyrí Halldórsdóttir - handknattleikur
  • Drífa Ríkarðsdóttir - lyftingar
  • Julia Bonet Carreras - blak
  • Margrét Árnadóttir - knattspyrna

Hermann Sigtryggsson og Hrefna G. Torfadóttir, fyrrverandi formenn KA, Hans Viktor Guðmundsson, sem varð annar í kjörinu, Alex Cambray Orrason íþróttamaður KA, Daði Jónsson sem varð í þriðja sæti, og Eiríkur S. Jóhannsson formaður KA.

Þeir sem tilnefndir voru í kjöri íþróttakarls KA:

  • Alex Cambray Orrason - lyftingar
  • Daði Jónsson - handknattleikur
  • Gísli Marteinn Baldvinsson - blak
  • Hans Viktor Guðmundsson - knattspyrna
  • Samir Ómar Jónsson - júdó

Stigahæsta hnébeygja Íslendings

Alex Cambray Orrason er íþróttakarl KA 2024 sem fyrr segir. Alex „er vel að heiðrinum kominn en hann átti afbragðs ár í sinni íþrótt, kraftlyftingum. Hann setti nokkur Íslandsmet, náði fremsta árangri allra karlkyns keppanda á alþjóðamótum, ásamt því að hafa sigrað öll innlend mót ársins í búnaði óháð þyngdarflokki,“ segir á vef KA. 

Fram kemur að Alex Cambray er formaður lyftingadeildar KA og einnig yfirþjálfari.

Á árinu varð hann Íslandsmeistari í kraftlyftingum með búnaði og varð fimmti á Evrópumeistaramótinu þar sem setti Íslandsmet. Á vef KA segir síðan:  „Almennt keppir Alex í -93 kg flokki, en í ágúst keppti hann á bikarmótinu í kraftlyftingum og ákvað þar að keppa í flokknum fyrir ofan sig, þ.e. -105 kg. Þar sló hann íslandsmet í -105 kg flokki í hnébeygju, með 360,5 kg, sem er stigahæsta hnébeygja sem hefur verið tekin á Íslandi frá upphafi.“ Hann sigraði í flokknum og var stigahæstur óháð þyngdarflokki sem tryggði honum bikarmeistaratitilinn.

Í haust keppti Alex á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum með búnaði sem haldið var hér á landi og varð þar sjötti í hnébeygju og í níunda sæti í samanlögðu.

Nánar hér um kjör íþróttakarls KA

Átti frábært tímabil

Julia Bonet, íþróttakona KA 2024, átti frábært tímabil þegar kvennalið KA varð bæði deildar- og Íslandsmeistari. „Julia er afar mikilvægur leikmaður fyrir KA en hún er kantsmassari sem skilar mörgum boltum beint í gólf hjá andstæðingunum. Hún var í liði ársins í úrvalsdeild hjá Blaksambandinu og var valin besti erlendi leikmaðurinn í deildinni sem sýnir hve mögnuð hún er. Julia er jákvæð, hvetjandi og góður liðsfélagi sem okkar ungu og efnilegu stúlkur líta upp til,“ segir á vef KA.

„Hún hefur líka náð góðum árangri sem þjálfari hjá okkur í yngri flokkum. Julia ásamt Zdravko hefur einnig átt veg og vanda að strandblaksæfingum og þjálfun byrjenda jafnt sem lengra komna í strandblakinu hér á Akureyri. Hún hefur einnig tekið þátt í strandblaksmótum hér innan lands og oftar en ekki tekið efstu sætin á þeim mótum.“

Nánar hér um kjör íþróttakonu KA

 

HLUTU BÖGGUBIKARINN

Kristjana Ómarsdóttir fimleikastúlka og Jens Bragi Bergþórsson handboltamaður, sem hlutu Böggubikarinn að þessu sinni. Nánari upplýsingar hér á vef KA.