Fara í efni
KA

Jónatan: „Þetta er risastór sigur fyrir KA“

Allan Nordberg og Bruno Bernat glaðbeittir við matarborðið eftir góðan sigur í Vínarborg í kvöld. Allan lék mjög vel og Bruno var frábær í seinni hálfleik

KA vann fyrri leikinn við austurríska liðið HC Fivers í 2. umferð Evrópubikarkeppninnar í handbolta í Vínarborg í kvöld. Eftir að heimamenn höfðu þriggja marka forystu í hálfleik, 15:12, sigruðu KA-menn 30:29. Liðin mætast aftur á sama stað á morgun og telst það heimaleikur KA.

Heimamenn byrjuðu betur, náðu snemma forystu vel hvattir af tæplega 600 áhorfendum og voru mest fimm mörkum yfir, 13:8, eftir liðlega 20 mínútur. KA-menn gerðu þá þrjú mörk í röð og í hálfleik munaði þremur mörkum, 15:12.

KA-strákarnir mættu svo af fítonskrafti til seinni hálfleiksins, söxuðu hratt á forskot Fivers og komust í fyrsta skipti yfir þegar um 10 mín. voru liðnar af seinni hálfleik, 20:19.

Heimamenn náðu að rétta úr kútnum um stundarsakir og komust í 24:22 en þjálfarar KA gripu þá til þess ráðs að taka leikhlé, gáfu sínum mönnum góð ráð en það sem ekki síst gerði gæfumuninn var að Bruno Bernat – sem leysti Nicholas Satchwell af í marki KA – fór á kostum og reyndist leikmönnum Fivers afar óþægur ljár í þúfu.

Ekki fullkomið en frábær sigur

Jónatan Magnússyni þjálfara KA líst vel á morgundaginn. „Þetta voru mikil átök og mikill hraði í leiknum og nú snýst allt um næringu, svefn og endurheimt,“ sagði hann í kvöld. 

„Nú er bara hálfleikur eins og ég sagði við strákana inni í klefa, en hafi einhverjir ekki haft trú á verkefninu fyrirfram hafa þeir það núna. Við verðum á heimavelli á morgun, það hefði verið gaman að spila fyrir norðan en það er bara eins og það er; við förum fullir sjálfstrausts í  seinni leikinn. Að því sögðu var þetta langt frá því að vera fullkominn leikur hjá okkur í dag en nú er það okkar Gulla að greina leikinn svo við verðum enn betur undirbúnir á morgun.“

Var eitthvað í leik HC Fivers sem kom á óvart? Heldurðu að þjálfarinn sé möguleika með einhverja ása upp í erminni fyrir morgundaginn?

„Nei, miðað við það sem við vorum búnir að sjá og búa okkur undir þá var ekkert nýtt hjá þeim. Það snerist mest um það hvernig okkur gekk að svara því sem þeir gerðu. Við fengum til dæmis allt of mikið af línufærum á okkur, við vissum fyrirfram að þeir spila mikið með því að leysa inn úr horninu og við lentum í basli með það, en ég er fyrst og fremst mjög ánægður með að sigra. Þetta er risastór sigur fyrir KA og hann verður ekki tekinn af okkur,“ sagði Jónatan.

Mörk KA: Einar Rafn Eiðsson 9, Dagur Gautason 8, Gauti Gunnarsson 5, Allan Nordberg 4, Einar Birgir Stefánsson 2, Arnór Ísak Haddsson 1, Dagur Árni Heimisson 1.

Varin skot: Bruno Bernat 8 – 61,5% og Nicholas Satchwell 6 – 20%.