Fara í efni
KA

Jónatan: „Stór dagur fyrir okkur“

Jónatan Þór Magnússon, þjálfari KA. Til vinstri er Sverre Andreas Jakobsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Jónatan Magnússon var aðeins 24 ára en þó orðinn fyrirliði KA þegar félagið varð síðast bikarmeistari í handbolta árið 2004. Nú er hann aðalþjálfari, teflir sínum mönnum fram í undanúrslitum í kvöld gegn Selfyssingum og hefur sett stefnuna á úrslitaleikinn á laugardag.

  • KA mætir liði Selfoss í undanúrslitunum í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 20.00 og verður sýndur beint á RUV 2.

Akureyri net spjallaði við Jónatan í morgun.

Þetta hlýtur að vera stór dagur hjá ykkur, að spila í undanúrslitum bikarkeppninnar á ný.

„Já, ég er sammála því. Við tókum ákveðið skref í fyrravetur, settum okkur það sem markmið að komast í umræðuna og í úrslitakeppnina, sem við gerðum, og eitt markmiðið fyrir þennan vetur var að koma okkur í leiki eins og þennan í kvöld. Og, eins og þú sagðir – þetta er stór dagur fyrir okkur. Og fyrst við erum komnir hingað er það ekki bara til að vera með. Við viljum að sjálfsögðu komast lengra og nú er komið að næsta skrefi; við einbeitum okkur að því að ná alvöru frammistöðu í kvöld.“

Góð blanda

Spennustig er tískuorð; miklu máli skiptir að menn séu rétt stemmdir þegar komið er í svona slag. Er það jafnvel eitt helsta verkefni þjálfara fyrir leiki eins og þennan?

„Já, það skiptir miklu máli en er ekki bara verkefni mitt, við vinnum allir að þessu saman, leikmenn og þjálfararnir. Þegar komið er í svona leiki er gott að vera með réttu blönduna; reynda menn sem hafa spilað svona stóra leiki og unga og efnilega stráka. Þannig er hópurinn okkar núna. Við sem höfum reynsluna vitum að þegar komið er út í svona leiki getur allt gerst en það gefur okkur sjálfstraust að við komum á ákveðinni siglingu inn í þessa baráttu. En við gerum okkur líka grein fyrir því að við þurfum að ná topp frammistöðu til að komast áfram.“

Þið hafi verið í veseni vegna meiðsla en hópurinn hefur náð að þjappa sér saman. Var það ekki kúnst?

„Það varð töluverð strúktur breyting á liðinu fyrir tímabilið, við misstum stóra og sterka póst, til dæmis Andra Snæ [Stefánsson] og Daða [Jónsson] og það tók tíma að stilla saman strengi. Liðið var langt frá því sem við ætluðum okkur í byrjun tímabilsins en svo slípast þetta, menn eru farnir að þekkja hver annan vel og eru fullir sjálfstrausts. Það var svo auðvitað rosalegt högg að missa Einar Rafn [Eiðsson, sem hefur verið meiddur undanfarið] en þá verða aðrir leikmenn að gera svo vel að taka að sér stærra hlutverk og hafa gert það.“

Stemningin frábær

Þú varst fyrirliði þegar KA varð síðast bikarmeistari 2004. Hefurðu reynt að  koma ungu strákunum í skilning um hvað sú upplifun er skemmtileg, til að búa þá undir bikarvikuna?

„Já, en þess þarf samt kannski ekki. Það er rosalega skemmtilegt að upplifa þá frábæru stemningu sem KA hefur oft skapað í bikarkeppninni og alla þyrstir í það. Bikarvikan er mikið mál í klúbbnum okkar, yngri flokkar eru líka á leið í úrslit, sjálfboðaliðarnir vinna mikið starf og ekki síst þeirra vegna og stuðningsmannanna vona ég að við stöndum okkur vel. Aðalmálið er að búa menn undir að halda okkar skipulagi inni á vellinum, ekki að pæla í því hvort 200 eða 50 af stuðningsmönnum okkar verði í húsinu. Það eru margir brottfluttir Akureyringar sem búa á höfuðborgarsvæðinu og ég vona að sjálfsögðu að þeir fjölmenni í kvöld, það er erfiðara fyrir fólk að koma að norðan núna, þótt ég hafi reyndar ekki hugmynd um hvort margir komi. En við viljum komast í úrslit og þá er ég viss um gula hafið kemur frá Akureyri.“ 

Síðustu leikir ykkar við Selfoss hafa verið mjög jafnir. Hvað heldurðu að ráði úrslitum í kvöld?

„Já, báðir leikirnir í fyrravetur enduðu með jafntefli og við töpuðum með einu marki á Selfossi í vetur. Þá áttum við síðustu sóknina en náðum ekki að jafna. Leikir á móti Selfossi eru dálítið sérstakir og lítið skorað. Liðin hafa bæði spilað mjög góða vörn og það kæmi mér ekki á óvart þótt leikurinn í kvöld yrði eins.  Ég held að þétt vörn verði lykilatriði, við þurfum að gera svipað og á móti FH í síðasta leik, öðru mjög góðu varnarliði, að ná góðri vörn og refsa með hraðaupphlaupum.“

Gríðarlega vel stemmdir

Jón Heiðar Sigurðsson, fyrirliði KA, er bjartsýnn. „Að sjálfsögðu, annars væri ég ekki að fara!“ sagði hann við Akureyri.net á Akureyrarflugvelli í dag. 

„Við erum gríðarlega vel stemmdir fyrir þessu verkefni, að komast í Final four var eitt þeirra markmiða sem við settum okkur fyrir keppnistímabilið – reyndar ekki bara að komast þangað heldur að standa okkur. Við erum allir hressir og frískir og ætlum okkur langt.

Við höfum náð að spila okkar leik reglulega upp á síðkastið og ef við náum við því í kvöld, og fáum góðan stuðning úr stúkunni, erum við allt eins líklegir til að vinna. Það búa margir KA-menn fyrir sunnan og einhverjir koma héðan veit ég. Það væri frábært fá góðan stuðning og gula stúku.“

Jóni Heiðari finnst alltaf gaman að keppa á móti liði Selfoss.  „KA-maður að þjálfa [Halldór Jóhann Sigfússon]og Guðmundur Hólmar [Helgason] í liðinu, ég spilaði með honum í yngri flokkunum og í meistaraflokki líka, frábær strákur. Selfoss er með hörkulið, einn til tvo góða leikmenn í öllum stöðum svo þetta verður stál í stál í kvöld.“

  • Að ofan: Ragnar Snær Njálsson fagnar með ungum KA-mönnum eftir að liðið sigraði Hauka í átta liða úrslitum bikarkeppninnar.

KA-strákarnir á Akureyrarflugvelli í hádeginu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.