Fara í efni
KA

Jónatan í viðræðum við lið í Skandinavíu

Jónatan Þór Magnússon þjálfari handboltaliðs KA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Jónatan Þór Magnússon, þjálfari handboltaliðs KA, hefur verið í viðræðum við forráðamenn liðs sem leikur í efstu deild í Skandinavíu, um að taka við þjálfun þess í sumar skv. áreiðanlegum heimildum Akureyri.net. 

Jónatan greindi stjórn handknattleiksdeildar KA frá því í desember að hann hygðist láta gott heita í vor eftir að hafa stýrt meistaraflokki karla hjá uppeldisfélagi sínu í fjóra vetur og þar áður kvennaliði KA/Þórs í tvö ár.

Heimildir Akureyri.net herma að viðræður Jónatans og Skandinavanna séu komna vel á veg. Jónatan vildi ekkert segja um málið þegar náðist í hann í kvöld en upplýsti þó að það kæmi að öllum líkindum í ljós á næstu dögum hvað tæki við hjá honum í sumar. Hann lagði þó áherslu á að það mikilvægasta um þessar mundir væri að róa að því öllum árum að KA lyki keppnistímabilinu á sem allra bestan hátt.