Fara í efni
KA

Jónatan harðorður í garð bæjaryfirvalda

Jónatan Magnússon, þjálfari karlaliðs KA í handbolta. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Jónatan Magnússon, þjálfari karlaliðs KA í handbolta, fer hörðum orðum um bæjaryfirvöld á Akureyri þar sem hann fjallar á Facebook síðu sinni um aðstöðumál fyrir íþróttir í bænum. 

„Hér virðist bæjarstjórn og ráðamenn skammast sín fyrir að byggja upp til íþrótta, telja það óþarfa kostnað en ekki fjárfestingu til framtíðar í öflugu íþróttastarfi og heilbrigðu líferni. Bærinn er gjörsamlega metnaðarlaus þegar kemur að því að skara framúr,“ skrifar Jónatan meðal annars.

Pistil Jónatans, sem hann birtir undir yfirskriftinni Metnaðarleysi má lesa hér í heild:

Ég er meistaraflokksþjálfari hjá liði í efstu deild í einni af vinsælustu íþróttum landsins. Við í KA erum með metnað og vilja til þess að ná langt. Vinna titla. Komast í Evrópukeppni. Ég þjálfaði líka KA/Þór kvennaliðið í nokkur ár og ofan á allt saman þjálfa ég yngstu hópana, bæði hjá strákum og stelpum hjá KA og KA/Þór.

Við landsbyggðarfólkið höfum alltaf þurft að hafa aðeins meira fyrir hlutunum. Við þurfum í langar rútuferðir, erfiðar flugferðir og safna peningum fyrir öllum auka-ferðunum og því tilheyrandi. Það gerum við lang oftast með bros á vör og fáum oftar en ekki styrki frá sérsamböndum og ferðajöfnunarsjóð ÍSÍ fyrir vikið. Þetta er landfræðilegt og við veljum okkur þetta. Að búa á Akureyri, því hér er svo gott að vera.

Eða hvað?

Ef ég ber aðstöðu míns liðs saman við ÖLL önnur lið í efstu deild erum við á botninum.

Við deilum íþróttahúsi með þremur öðrum keppnisliðum í efstu deild á Íslandi. Þar af leiðandi er barist um æfingatíma, þeir misjafnlega góðir og misjafnlega langir. Þeir eiga það líka til að detta út og falla niður vegna annarra leikja og mótahalds hjá hverri grein fyrir sig.

Klefinn okkar er gömul geymsla. Geymsla sem að mínir eigin leikmenn og stjórnarmenn voru svo heppnir að fá úthlutaða hjá KA til þess að gera klefa úr og gerðu það á eigin kostnað. Hinsvegar er ekki pláss fyrir sturtur fyrir leikmennina.

Aðstaða fyrir áhorfendur í KA-heimilinu er döpur. Hér er engin aðstaða til að bjóða upp á ársmiðakaffi, hitting fyrir leik, spjall eftir leik eða hvað sem er gert til þess að gera sem mest fyrir upplifun fólks að koma á íþróttaleiki. KA á bestu áhorfendur á landinu en áhorfendur KA eiga ekki að sætta sig við þessa aðstöðu sem boðið er uppá.

Ef ég fer í smá upptalningu á öðrum félögum í deildinni þá lítur þetta svona út:

FH, Haukar, HK, ÍBV, UMFA, Valur, Grótta og Stjarnan hafa öll tvo til þrjá íþróttasali í sinni aðstöðu með stórum áhorfendastúkum og flottri aðstöðu til lyftinga og geggjaðri aðstöðu fyrir áhorfendur, ársmiðahafa, fjölmiðla og fleira (auðvitað mismunandi eftir félögum) – og ekkert af þessum liðum þarf að deila keppnisgólfinu með meira en einu öðru liði (þá hinu kyninu í sömu íþrótt).

Fram og Víkingur hafa „bara einn“ sal en þurfa ekki að deila honum með öðrum íþróttagreinum.

Selfoss er síðan í aðstöðubrasi, en þar er að fara í gang geggjuð uppbygging. Bærinn svaraði kallinu og vill hreykja sér af því að eiga lið í fremstu röð.

Á bak við þessi félög eru ekkert fleiri íbúar, félögin sem hér eru upptalin eru flest með frá 5000- 15000 íbúa á bak við sig hvert, eða sem sagt mjög svipað og við þannig að stærðin er engin afsökun fyrir lélegri aðstæðum.

Hér virðist bæjarstjórn og ráðamenn skammast sín fyrir að byggja upp til íþrótta, telja það óþarfa kostnað en ekki fjárfestingu til framtíðar í öflugu íþróttastarfi og heilbrigðu líferni. Bærinn er gjörsamlega metnaðarlaus þegar kemur að því að skara framúr.

Ekki nóg með að þurfa að klífa þær hindranir sem ferðalög milli landshluta eru. Að fara fjallabaksleiðina í flesta útileiki, leggja á okkur ferðalög og mikinn tíma til þess að keppa í fremstu röð, þá er Akureyrarbær farinn að takmarka okkur líka og setja hindranir í okkar veg.

Þetta er skammarlegt. Þetta er ömurlegt.

Afhverju er ekki hægt að byggja almennilega upp hér fyrir íþróttir? Nota bene, þegar er byggt upp fyrir íþróttir er það ekki bara fyrir meistaraflokkinn – heldur líka þau 1300 börn sem æfa hjá KA, hvort sem það er handbolti, fótbolti, blak, júdó eða badminton.

P.s. það virkar ekki að segja „keppið bara í íþróttahöllinni“ – það væri eins og að segja öllum félögunum í Reykjavík að spila bara í Laugardalshöllinni.