Fara í efni
KA

Jens Bragi og Ott Varik semja til tveggja ára

Jens Bragi Bergþórsson, til vinstri, og Ott Varik.

Tveir leikmenn handboltaliðs KA hafa framlengt samning sinn við félagið til tveggja ára, hornamaðurinn Ott Varik og línumaðurinn Jens Bragi Bergþórsson. Áður höfðu Dagur Árni Heimisson og Magnús Dagur Jónatansson samið áfram við félagið.

Greint er frá tíðindinum á heimasíðu KA. Þar segir meðal annars um leikmennina tvo:

  • Ott gekk í raðir KA fyrir veturinn og kom gríðarlega öflugur inn í liðið og [stóð] heldur betur fyrir sínu í hægra horninu er hann gerði 115 mörk í 27 leikjum og var meðal markahæstu manna Olísdeildarinnar.
  • Ott sem er 33 ára gamall er landsliðsmaður Eistlands og hefur komið ákaflega vel inn í félagið okkar. Hann er mikill baráttujaxl sem drífur menn með sér og er ákaflega teknískur í slúttum auk þess að hann er alltaf fyrsti maður fram í hraðaupphlaupum.
  • Ekki nóg með að standa fyrir sínu inni á vellinum þá hefur hann lagt sig fram utan vallar en hann var meðal annars með vel heppnaðar aukaæfingar fyrir metnaðarfulla iðkendur. Þá hefur hann lagt sig fram við að læra íslensku og er orðinn ansi liðtækur við að tjá sig.
  • Jens sem verður 18 ára í sumar er orðinn algjör lykilmaður í meistaraflokksliði KA og afar jákvætt að hann taki áfram slaginn með uppeldisliðinu.
  • Jens hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína á línunni en hann lék 26 leiki á nýliðnum vetri þar sem hann gerði 42 mörk og var skotnýting hans 74%.
  • Jens er hluti af hinum ógnarsterka 2006 árgang í félaginu en strákarnir töpuðu ekki leik í öllum fjórða flokki þar sem þeir hömpuðu öllum þeim titlum sem í boði voru á Íslandi áður en þeir urðu Partille Cup meistarar en þar lögðu þeir mörg af sterkustu liðum Norðurlandanna.