Fara í efni
KA

Jakobína fyrirliði gegn Marokkó

Það var heldur hlýrra á okkar stelpum í Marokkó en hér heima í dag. Hulda Björg Hannesdóttir, Jakobína Hjörvarsdóttir, Karen María Sigurgeirsdóttir og María Catharina Ólafsdóttir Gros.

Fjórir Akureyringar voru í byrjunarliði U23 landsliðs kvenna í knattspyrnu sem mætti liði Marokkó öðru sinni í dag í æfingaleik sem fram fór í Rabat í Marokkó. Jakobína Hjörvarsdóttir var fyrirliði í leik dagsins.

Liðin gerðu markalaust jafntefli í dag í miklum hita í Rabat, en Ísland vann fyrri leikinn 3-2 á föstudag.

Byrjunarlið dagsins. Hulda Björg Hannesdóttir nr. 14, Jakobína Hjörvarsdóttir nr. 3, María Gros nr. 11 og Karen María Sigurgeirsdóttir nr. 16. Spilað var með sorgarbönd í dag til minningar um fórnarlöm jarðskjálftanna í Marokkó á dögunum. Mynd: KSÍ.

Hulda Björg Hannesdóttir, Jakobína Hjörvarsdóttir og Karen María Sigurgeirsdóttir, sem leika með Þór/KA í Bestu deildinni, voru allar í byrjunarliði U23 liðsins í dag, en auk þeirra var fyrrum leikmaður Þórs/KA, María Catharina Ólafsdóttir Gros, sem nú spilar með Fortuna Sittard í Belgíu, í byrjunarliðinu.

Þær Hulda Björg og Jakobína spiluðu allan leikinn, María fór út af þegar nokkrar mínútur voru eftir og Karen María spilaði rúman klukkutíma.

Um leikinn í dag segir á vef KSÍ: Fyrri hálfleikur var heldur jafn og stóð íslenska liðið sig vel þrátt fyrir mikinn hita, bæði lið sköpuðu sér nokkur færi en þó var markalaust í hálfleik. Seinni hálfleikur var mjög svipaður og héldu bæði lið áfram að skiptast á sóknum, inn vildi þó boltinn ekki og voru því lokatölur í Rabat 0-0.

Aftur tap hjá U19

Fyrr í dag beið U19 landslið kvenna lægri hlut gegn Noregi á æfingamóti sem fram fór í Sarpsborg í Noregi, 1-3. Tvær frá Þór/KA voru í byrjunarliðinu í dag, Iðunn Rán Gunnarsdóttir og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir. Amalía Árnadóttir og Steingerður Snorradóttir voru varamenn.