Fara í efni
KA

Jakob kom, sá og skaut KA í undanúrslit

Jakob Snær Árnason fagnar sigurmarki sínu í bikarleiknum í kvöld þegar aðeins fáeinar mínútur voru eftir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn eru komnir í undanúrslit bikarkeppni karla í knattspyrnu, Mjólkurbikarkeppninnar, eftir 2:1 sigur á Grindvíkingum á heimavelli í kvöld. 

Eins og í síðasta heimaleik á Íslandsmótinu rak Jakob Snær Árnason smiðshöggið á það verðuga verk að sigra andstæðinginn. Siglfirðingurinn knái kom af varamannabekknum gegn Fram á dögunum og gerði tvö mörk á lokamínútunum í 4:2 sigri og í kvöld var honum skipt inn á þegar 10 mínútur voru eftir og þegar tvær og hálf mínúta lifði af hefðbundnum leiktíma gerði Jakob sigurmarkið eftir góðan undirbúning Hallgríms Mar Steingrímssonar og Elfars Árna Aðalsteinssonar.

Birgir Baldvinsson brosti nánast hringinn eftir að hann kom KA yfir í kvöld og ekki að undra. Markið var mikilvægt og auk þess það fyrsta sem hann skorar fyrir KA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson 

Vinstri bakvörður KA, Birgir Baldvinsson, gerði eina mark fyrri hálfleiks þegar hann kom boltanum framhjá gamla KA-manninum Aroni Degi Birnusyni, markmanni gestanna, með næst síðustu spyrnu hálfleiksins. Sigurður Þrastarson dómari flautaði hálfleikinn af strax eftir að Grindvíkingar tóku miðju. Þetta var fyrsta mark Birgis fyrir uppeldisfélagið.

Marko Vardic, framherji Grindvíkinga, blés lífi í rólegan seinni hálfleik þegar rúmar 20 mínútur voru eftir með stórglæsilegu marki. Það kveikti vonarneisti hjá gestunum um að komast áfram en Jakob Snær slökkti hann í lokin.

KA, Vík­ing­ur og Breiðablik eru kom­in í undanúr­slit. Í kvöld kemur í ljós hvort fjórða liðið verður KR eða Stjarn­an.

Nánar seinna í kvöld

Marko Vardic, framherji Grindvíkinga, virtist varla trúa eigin augum þegar hann horfði á eftir boltanum í mark KA. Hér hleypur hann, fyrir miðju, í átt að stuðningsmönnum liðsins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson