Fara í efni
KA

Jafnt í æsispennandi leik – naumt tap í Eyjum

Einar Rafn Eiðsson skorar eitt af 12 mörkum gegn ÍBV í KA-heimilinu í dag. Til vinstri er Gauti Gunnarsson sem gerði 8 mörk. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

KA og ÍBV skildu jöfn 35:35 í Olís deild karla, efstu deild Íslandsmótsins í handbolta, eftir gríðarlega spennu í KA-heimilinu í dag.

Einar Rafn Eiðsson gerði 12 mörk fyrir KA og hornamennirnir tveir komu næstir; Gauti Gunnarsson, Eyjamaður sem kom frá ÍBV í sumar, gerði átta mörk og Dagur Gautason sjö.

KA hafði mest fimm marka forystu í fyrri hálfleik en munurinn var þrjú mörk í hálfleik, 19:16. Eyjamenn komust loks yfir, 30:29, þegar 12 mín. voru eftir og leikurinn var í járnum allt til leiksloka.

  • Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum.

Í Vestmannaeyjum mættust ÍBV og KA/Þór í fyrstu umferð Olís deildar kvenna í handbolta. ÍBV sigraði með aðeins eins marks mun, 28:27, eftir að staðan í hálfleik var 14:13 fyrir heimamenn. Lið ÍBV byrjaði seinni hálfleikinn af gríðarlegum krafti og náði mest sjö marka forystu en Stelpurnar okkar voru ekki á þeim buxunum að leggja árar í bát og börðust hetjulega. Það dugði þó ekki til að ná í stig að þessu sinni, en baráttan var aðdáunarverð.

Unnur Ómarsdóttir var markahæst hjá KA/Þór, gerði sex mörk.

Vert er að geta þess að Rut Jónsdóttir, besti maður KA/Þórs síðustu misseri, var ekki með í dag. Hún sneri sig á ökkla á æfingu í vikunni og gat ekki leikið. Hún ætti þó að verða tilbúinn í slaginn strax í næsta leik.

  • Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leik ÍBV og KA/Þórs.

Dagur Árni Heimisson stóð sig vel í dag sem leikstjórnandi og fær væntanlega býsna stórt hlutverk hjá KA í vetur miðað við aldur. Hann er aðeins 15 ára, verður ekki 16 fyrr en síðar á árinu! Gríðarlega efnilegur strákur sem á ekki langt að sækja hæfileikana, foreldrar hans eru handboltakapparnir Martha Hermannsdóttir og Heimir Örn Árnason. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson