Fara í efni
KA

Jafnt hjá KA og KR í fyrsta leik – MYNDIR

KA-maðurinn Sveinn Margeir Hauksson og sá leikmaður Bestu deildarinnar sem skartað hefur magnaðasta skeggi deildarinnar síðustu ár; Kristinn Jónsson, vinstri bakvörður KR. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

KA og KR gerðu 1:1 jafntefli í dag í fyrstu umferð Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu, eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í dag. 

Leikurinn á Greifavelli KA-manna á félagssvæðinu við Dalsbraut var fjörugur, KA-menn betri í fyrri hálfleik en gestirnir voru meira með boltann í þeim seinni og úrslitin verða að teljast sanngjörn.

KR-ingar komust yfir á 82. mín. þegar Kristján Flóki Finnbogason skoraði úr vítaspyrnu en Þorri Mar Þórisson jafnaði þegar komið var í uppbótartíma.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna og myndasögu Skapta Hallgrímssonar af leiknum má sjá hér að neðan.

_ _ _

785 FÖGNUÐU VORKOMUNNI
Vorboðinn ljúfi, Íslandsmótið í knattspyrnu, var boðinn velkominn til Akureyrar af 785 áhorfendum sem mættu á leikinn. Veðurstofan kaus að bjóða upp á Reykjavíkurveður í tilefni dagsins! Sem sagt; ekki var sérlega hlýtt í veðri og rigning mest allan tímann ...

_ _ _

DAUÐAFÆRI Á 5. MÍNÚTU
Færeyski framherjinn hjá KA, Pætur Joensson Petersen fékk dauðafæri strax á 5. mínútu leiksins. Daníel Hafsteinsson gerði vel í vítateignum vinstra megin, sendi boltann fyrir markið en Færeyingurinn skaut framhjá. Gullið tækifæri til að ná forystu fyrir KA í fyrsta leik hans í deildinni en framherjanum brást illa bogalistin. 

_ _ _

FYRSTU GULU SPJÖLDIN
KR-ingurinn Ægir Jarl Jónsson fékk fyrstu áminningu leiksins; hann togaði Svein Margeir Hauksson niður á miðjum vellinum þegar KA-maðurinn var á leið í skyndisókn. Bjarni Aðalsteinsson leit svo gula spjaldið fyrstur KA-manna á 28. mín. þegar hann braut á Theodór Elmari Bjarnasyni.

_ _ _

AUKASPYRNA Á HÆTTULEGUM STAÐ
Brotið var á Sveini Margeiri Haukssyni rétt utan vítateigs á 40. mín. Hallgrímur Mar Steingrímsson þrumaði að marki en skotið fór beint á Norðmanninn Lillevik sem kýldi boltann í burtu. Aron Þórður Albertsson fékk gult spjald fyrir brotið á Sveini Margeiri en óhætt að segja að Finnur Tómas Pálmason, númer 7, sé ekki beinlínis sammála þeirri ákvörðun dómarans!

_ _ _

TVEIR ÞÓRSARAR MEÐ KR
Atli Sigurjónsson, til vinstri, sem hefur leikið með KR síðasta áratuginn - fyrir utan stuttan tíma hjá Breiðabliki - var besti maður Vesturbæjarliðsins í fyrrasumar. Atli er uppalinn í Þór sem kunnugt er og annar Þórsari var í liði KR í dag, Jakob Franz Pálsson. Þetta var fyrsti leikur hans í efstu deild hérlendis. Þór seldi Jakob Franz til Venezia á Ítalíu fyrir nokkrum misserum en KR-ingar nældu í þennan sterka varnarmann í vetur. Hann er aðeins tvítugur að aldri; fagnaði tvítugsafmælinu í janúar. Þriðji Þórsarinn, Aron Kristófer Lárusson, er í herbúðum KR, en var ekki í leikmannahópnum í dag.

_ _ _

KR KEMST í 1:0
KR-ingar komust yfir á 82. mín. þegar Kristján Flóki Finnbogason skoraði úr vítaspyrnu. Þorri Mar Þórisson, hægri bakvörður KA, gerði sig þá sekan um slæm mistök; Kennie Chopart, fyrirliði KR, var með bolt­ann úti á kanti að búa sig undir að senda fyrir markið þegar Þorri Mar togaði Kristján Flóka niður í teignum. Erlendur Eiríksson var nærstaddur, sá atvikið mjög vel og gerði það eina rétta.

_ _ _

ÞORRI - SKÚRKUR OG HETJA
Þorri Mar Þórisson bætti fyrir mistökin hinum megin á vellinum þegar hann jafnaði metin í uppbótartíma. Bakvörðurinn fékk boltann úti á hægri kanti, lék inn á völlinn og skoraði með glæsilegu vinstri fótar skoti utarlega úr teignum. Skotið var ekki fast en mjög hnitmiðað og boltinn fór neðst í bláhornið fjær. Afar vel gert.

Þorri Mar - sem sést reyndar varla vegna leikmanns KR númer 5 - skýtur að marki KR þegar komið er í uppbótartíma ...

Simen Lillevik markvörður KR horfir á eftir boltanum í netið. Lengst til hægri sést glitta í Þorra Mar. Að neðan fagnar Ívar Örn Árnason, fyrirliði KA, með markaskoraranum.