Fara í efni
KA

Jafn leikur en KA tapaði bikarúrslitaleiknum

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Kvennalið KA tapaði 3:0 fyrir Aft­ur­eld­ingu í úrslitaleik bikarkeppninnar í blaki í Kópavogi í dag. Þótt Afturelding hafi unnið í þremur hrinum segir það ekki alla söguna því allar voru þær jafnar og spennandi.

KA var reyndar með pálmann í höndunum í tveimur fyrri hrinunum en það dugði ekki til. Í fyrstu hrinunni komst KA í 20:15, 23:20 og 24:22 en Afturelding gerði fjögur síðustu stigin og vann 26:24.

Í annarri hrinu komst KA í 23:19 en þá gerði Afturelding sex síðustu stigin og vann 25:23.

Þriðja hrinan var sú eina þar sem Afturelding tók frumkvæðið strax í byrjun, munurinn var aldrei mikill en Mosfellingarnir unnu með þriggja stiga mun, 25:22.