Fara í efni
KA

Jafn leikur en KA náði ekki að skora og tapaði

Daníel Hafsteinsson og Hallgrímur Mar Steingrímsson, annar og þriðji frá hægri, skutu báðir í tréverk KR-marksins í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA tapaði 2:0 fyrir KR í dag í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Leikurinn á KR-vellinum var býsna jafn og eini munurinn í raun sá að KR-ingar skoruðu en KA-menn ekki, sem er ætíð hið eina sem máli skiptir þegar gert er upp; í lok leiks eru mörkin talin og ekkert annað kemur málinu við.

KA-menn léku á lifandi grasi í fyrsta sinn í sumar og kunnu prýðilega við sig. KR-ingar byrjuðu reyndar af meiri krafti en gestirnir fengu hins vegar fyrsta færið; stundarfjórðungur var liðinn þegar KA fékk aukaspyrnu úti við hornfána hægra megin, boltinn var sendur fyrir markið en KR-ingar hreinsuðu frá og Daníel Hafsteinsson þrumaði í þverslána og aftur fyrir.

Heimamenn ógnuðu fljótlega en Kristijan Jajalo varði vel. Það var svo undir lok fyrri hálfleiks sem KR gerði fyrsta markið. Atli Sigurjónsson tók hornspyrnu, Benoný Breki Andrésson skallaði að marki en Jajalo varði, Ægir Jarl Jónasson náði boltanum, lyfti honum snyrtilega upp og skallaði yfir Jajalo, sem enn lá á vellinum, og í markið. Óvenjulegt mark en mikilvægt fyrir Vesturbæinga.

Litlu munaði að Theo­dór Elm­ar Bjarna­son bætti marki við fyrir KR rétt áður en fyrri hálfleikurinn var allur; eftir fyrirgjöf inn í teig skallaði hann boltann í stöng, fékk hann aftur og skaut en Jajalo varði.

KA-menn byrjuðu seinni hálfleikinn betur og Þorri Már Þórisson átti snemma þrumuskot rétt yfir markið. Stundarfjórðungi fyrir leikslok small boltinn aftur í tréverkinu hjá KR; Elfar Árni Aðalsteinsson átti glæsilega sendingu inn á teig á Hallgrím Mar Steingrímsson sem tók boltann á lofti og þrumaði honum í þverslá.

KA-menn voru til alls líklegir en það voru hins vegar heimamenn sem skoruðu aftur; Sigurður Bjartur Hallsson skallaði í markið og aftur var það Atli Sigurjónsson sem átti sendinguna; gamli Þórsarinn lék mjög vel í dag, hann tók hornspyrnu á 77. mín. og sendi beint á kollinn á Sigurði sem gerði út um leikinn.

Eftir leikinn er KA í fimmta sæti deildarinnar með 17 stig að loknum 13 leikjum.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna