Fara í efni
KA

Ísland í 5. sæti – Dagur Árni í liði mótsins

Dagur Árni Heimisson var valinn í úrvalslið Opna Evrópumótsins í handbolta þar sem U17 landslið Íslands varð í fimmta sæti. Mynd: HSÍ

Strákarnir í U-17 ára landsliðinu í handbolta urðu í fimmta sæti Opna Evrópumótsins, European Open, sem lauk í Gautaborg í Svíþjóð í gær. Þeir máttu þá Króötum í leik um fimmta sætið og unnu eftir framlengingu.

Íslenska liðið lék vel á mótinu, enginn þó betur en KA-maðurinn Dagur Árni Heimisson, og var hann valinn í úrvalslið mótsins sem besta  vinstri skytta, eins og það er kallað; skytta sem leikur vinstra megin á vellinum í sókninni. Tilkynnt var um það við verðlaunaafhendingu í Scandinavium íþróttahöllinni.

Króatar voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 14:12, og staðan að loknum hefðbundnum 60 mínútum var 30:30. Í framlengingunni tók markvörður Íslands, KA-maðurinn Óskar Þórarinsson, leikinn í sínar hendur, ef svo má segja, því hann varði þá 10 skot en hafði varið sex í hefðbundnum leiktíma. Lokatölur urðu 35:32 Íslandi í vil.

Mörk Íslands skiptust þannig, skv. heimasíðu HSÍ: Ágúst Guðmundsson 10, Stefán Magni Hjartarson 9, Dagur Árni Heimisson 7, Harri Halldórsson 3, Þórir Ingi Þorsteinsson 3, Hugi Elmarsson 1, Antoine Óskar Pantano 1, Magnús Dagur Jónatansson 1.