Fara í efni
KA

Ísfold Marý og Jakobína fara á EM með U19

Jakobína Hjörvarsdóttir, til vinstri, og Ísfold Marý Sigtryggsdóttir. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA á tvo fulltrúa í landsliðshópi U19 landsliðs kvenna sem tekur þátt í lokamóti EM í Belgíu í síðari hluta júlímánaðar. Þær Ísfold Marý Sigtryggsdóttir og Jakobína Hjörvarsdóttir hafa nánast átt fast sæti í U19 landsliðinu í nokkurn tíma og kom því ekki á óvart að þær skyldu valdar í lokahópinn. 

Margrét Magnúsdóttir, þjálfari U19 landsliðsins, tilkynnti lokahópinn fyrir þetta verkefni í morgun. Mörg lið í Bestu deildinni eiga fulltrúa í hópnum og eins og hefur KSÍ tilkynnt félögunum að ef lið óskar eftir tilfærslu á leik eða leikjum vegna fjarveru leikmanna sem taka þátt í þessu verkefni muni verða orðið við því. Nóg er að annað liðið óski eftir slíkri breytingu.

Lokamót EM hjá U19 kvenna fer fram í Belgíu í síðari hluta júlímánaðar. Leikdagar Íslands eru 18. júlí gegn Spáni, 21. júlí gegn Tékklandi og 24. júlí gegn Frakklandi. Undanúrslitaleikir fara fram 27. júlí og úrslitaleikurinn sunnudaginn 30. júlí. Á þessu tímabili á Þór/KA útileik gegn Breiðabliki 21. júlí og heimaleik gegn Þrótti 26. júlí, en þessi þrjú lið eiga öll fulltrúa í U19 landsliðshópnum. Þór/KA á svo útileik gegn FH næst á eftir áðurnefndum leikjum, 2. ágúst, en það fer auðvitað eftir árangri U19 liðsins á mótinu hvort þátttaka þess hefur áhrif á þann leik.

Akureyri.net sagði frá því á dögunum að leikjum yrði breytt ef óskað væri vegna þátttöku U19 landsliðs karla í lokamóti EM og fyrr í vikunni hélt KSÍ fund með fulltrúum félaganna þar sem tilkynnt var um það sama hjá þeim.

Tvær frá Þór/KA með U16 á NM

Þór/KA á einnig tvo fulltrúa í U16 landsliðinu sem tekur þátt í Norðurlandamótinu. Þær Karlotta Björk Andradóttir og Kolfinna Eik Elínardóttir eru í þeim hópi, en Þórður Þórðarson, þjálfari U16 landsliðsins, tilkynnt valið á hópnum í morgun. Norðurlandamótið fer fram í Sundsvall í Svíþjóð dagana 5.-13. júlí.