Fara í efni
KA

Ingvar hættur sem formaður KA

Ingvar Már Gíslason, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi og eiginkona Ingvars, á leik handboltaliða KA og Stjörnunnar í KA-heimilinu fyrir skemmstu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Ingvar Már Gíslason er hættur sem formaður Knattspyrnufélags Akureyrar. Þetta var tilkynnt á heimasíðu félagsins í morgun. Hann segir ástæðuna utanaðkomandi aðstæður þar sem því miður fari ekki saman að gegna embættinu, jafnvel þótt um sjálfboðastarf sé að ræða, á sama tíma og eiginkona hans sé kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn. Hilda Jana Gísladóttir, eiginkona Ingvars, er oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Akureyrar.

Yfirlýsing Ingvars er svohljóðandi:

„Kæru félagar, mér þykir það miður að tilkynna um, að vegna utanaðkomandi aðstæðna verð ég að stíga til hliðar sem formaður KA frá og með deginum í dag. Ég hef farið þess á leit við varaformann okkar Eirík S. Jóhannsson að hann taki við stjórn félagsins fram að aðalfundi KA, en hann er fyrirhugaður 6. apríl næstkomandi. Að auki liggur þá fyrir að varamaður okkar í aðalstjórn, Vignir Már Þormóðsson, taki sæti mitt í stjórn félagsins. Að sjálfsögðu verð ég þeim báðum sem og stjórninni allri innan handar með yfirfærslu á þeim verkefnum sem ég hef haft á minni könnu.

Á undanförnum vikum hefur það orðið ljóst að því miður fer það ekki saman að veita stóru félagi eins og KA er forystu, jafnvel þótt um sjálfboðastarf sé að ræða, á sama tíma sem maki minn er kjörinn fulltrúi í sveitastjórn. Ég tel það farsælast fyrir KA, mig sjálfan og fjölskyldu mína, að ég stígi til hliðar sem formaður KA á þessum tímapunkti. Sem fyrr mun ég vinna ötullega að framgangi okkar ástkæra félags en á öðrum vettvangi.

Kveðja góð, takk fyrir mig

Áfram KA

Ingvar Gíslason“