Fara í efni
KA

Í dag: Þór/KA - Þróttur og Þór úti gegn Leikni

Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir, leikmaður Þórs/KA, og Aron Ingi Magnússon, leikmaður Þórs. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Stelpurnar í Þór/KA fara aftur á ferðina í dag eftir þriggja vikna hlé þegar þær fá Þróttara í heimsókn í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Þá verður karlalið Þórs líka í eldlínunni; strákarnir mæta Leikni í Reykjavík í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins.

  • 14.00, Leiknir - Þór

Liðin eru jöfn í 5. til 6. sæti, hafa bæði 17 stig að loknum 13 leikjum en Leiknir er með betri markatölu. Þórsarar unnu Leikni 1:0 í fyrri umferðinni á heimavelli 20. maí með marki Valdimars Daða Sævarssonar. Hann gerði tvö mörk í síðasta leik þegar Þór vann Gróttu 3:1 á heimavelli.

Leikur Leiknis og Þórs verður í beinni útsendingu á youtube rás Lengjudeildarinnar – smellið hér til að horfa.

  • 16.00, Þór/KA - Þróttur

Liðin mætast á VÍS-vellinum (Þórsvellinum). Þróttur er í þriðja sæti Bestu deildarinnar með 21 stig úr 12 leikjum en Þór/KA er í humátt á eftir með 19 stig, einnig eftir 12 leiki. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Þróttur vann fyrri leik liðanna í deildinni 2:1 í Reykjavík 22. maí. Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir gerði þá mark Þórs/KA; eina mark sitt til þessa í efstu deild.

  • Spánverjinn Ion Perelló Machi fékk sig lausan frá Þór á dögunum eins og Akureyri.net sagði frá. Í gær var greint frá því að miðjumaðurinn væri genginn til liðs við Fram, sem leikur í Bestu deildinni.