Fara í efni
KA

Hvað gera KA-menn gegn Leikni í Breiðholtinu?

Elfar Árni Aðalsteinsson fagnar sigurmarkinu gegn ÍBV á dögunum. Hann tryggði KA einnig sigur með eina markinu gegn Leikni í fyrri umferðinni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA sækir Leikni heim í dag í Bestu deildinni í knattspyrnu, efstu deild Íslandsmótsins. Flautað verður til leiks klukkan 17.00.

KA er í þriðja sæti fyrir leiki dagsins og verður það áfram með sigri en nái KA-menn ekki að næla í öll þrjú stigin gætu bæði Stjörnumenn og Valsarar komist upp fyrir þá. Liðin eru bæði einu stigi á eftir KA og eiga einnig leik í dag; Valur mætir ÍBV í Eyjum og Stjarnan sækir Skagamenn heim.

KA vann Leikni 1:0 á Dalvík í fyrri umferðinni. Leiknismenn áttu erfitt uppdráttar framan af sumri en hafa verið á góðu skriði upp á síðkastið; einu sigurleikirnir hafa komið í síðustu tveimur umferðum, fyrst var ÍA lagt að velli í Breiðholtinu, 1:0, og í síðustu umferð gerðu Leiknismenn sér lítið fyrir og unnu lið Stjörnunnar 3:0 í Garðabæ.

KA er með 21 stig eftir 12 leiki en Leiknir með 10 stig, einnig eftir 12 leiki.