Fara í efni
KA

„Hugrekki strákanna var lykillinn“ – MYNDIR

Mateo þjálfari og leikmaður KA hrósar sínum mönnum eftir að Íslandsmeistaratitillinn var í höfn í gærkvöldi. Hann heldur á Ariel, tæplega fjögurra mánaða gamalli dóttur þeirra Paula del Olmo. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Íslandsmeistaratitill karlaliðs KA í blaki í gær var ekki síst stór stund fyrir Miguel Mateo Castrillo, besta leikmann liðsins og þjálfara. Hann var himinlifandi að leikslokum og gríðarlega stoltur af samherjum sínum og lærisveinum.

„Við vorum mjög hugrakkir – hugrekki strákanna var lykillinn að þessum sigri,“ sagði Mateo við Akureyri.net á meðan fagnaðarlætin stóðu sem hæst. „Þetta hefur einkennt leik okkar. Gott dæmi er síðasti leikurinn í undanúrslitunum [gegn Aftureldingu] þegar við lentum 2:0 undir og hina vantaði aðeins tvö stig til að vinna þriðju hrinuna og þar með slá okkur út úr keppninni. Þá sagði ég við strákana að þú væri að duga eða drepast, þeir yrðu að gefa allt í þetta, og það tókst.

KA vann umrædda þriðju hrinu 27:25 eftir upphækkun og tvær hrinur í kjölfarið og komst þannig í úrslit gegn meisturum fyrra árs, Hamri frá Hveragerði.

„Í kvöld unnum við svo sterkasta liðið síðustu ár, liðið sem hefur unnið alla titlana en við höfðum meiri vilja og stemningin var með okkur. Ég á varla orð til að lýsa tilfinningunni eða því hve ánægður ég er. Það er stórkoslegt að verða Íslandsmeistari,“ sagði Mateo.

Þetta var fyrsta ár Mateo sem þjálfara karlaliðsins. „Já, það var mikil áskorun að taka við þjálfun strákanna. Ég hef þjálfað stelpurnar undanfarin ár en félagið bað mig að taka þetta verkefni að mér líka, og það er vissulega stórt verkefni að þjálfa bæði liðin. En strákarnir hafa alltaf hlustað vel á mig, þeir voru tilbúnir að leggja mjög mikið á sig þannig að í rauninni var auðvelt að þjálfa þá. Nú uppskera þeir eins og til var sáð og það er stórkostlegt. Þeir eiga sigurinn sannarlega skilið.“

Frétt Akureyri.net í gærkvöldi: KA-strákarnir urðu Íslandsmeistarar