KA
Heimir Örn kemur inn í þjálfarateymi KA
02.12.2021 kl. 17:53
Jónatan Magnússon og Sverre Andreas Jakobsson á hliðarlínunni - Heimir Örn Árnason og Haddur Stefánsson, formaður handknattleiksdeildar KA, við undirritun samnings í dag.
Heimir Örn Árnason samdi í dag við handknattleiksdeild KA og kemur inn í þjálfarateymi meistaraflokks karla. Hann verður Jónatan Magnússyni og Sverre Andreas Jakobssyni til aðstoðar og halds og trausts, eins og það er orðað á heimasíðu félagsins.
Heimir er KA-maður í húð og hár og lék í mörg ár með félaginu, auk þess að þjálfa. Síðustu ár hefur hann verið einn besti dómari landsins en leggur flautuna á hilluna það sem eftir lifir vetrar, eins og gefur að skilja.
KA er í 10. sæti af 12 liðum Olís deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins, með sex stig eftir 10 leiki; hefur unnið þrjá leiki en tapað sjö. Næstu leikur liðsins er gegn Gróttu í KA-heimilinu klukkan 18.00 á sunnudaginn.