Fara í efni
KA

Hans Viktor til KA og Willard semur áfram

Harley Willard í leik með KA í sumar. Innfellda myndin, af Hans Viktori, birtist á vef KA í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Harley Willard skrifaði í vikunni undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild KA og er nú samningsbundinn út sumarið 2025. Í dag tilkynnti KA svo að félagið hefði samið við miðvörðinn Hans Viktor Guðmundsson, einnig út leiktíðina 2025. Hans Viktor kemur frá Fjölni þar sem hann hefur leikið allan ferilinn.

Hans Viktor er 27 ára. Hann á að baki 81 leiki í efstu deild en hefur tekið þátt í 73 leikjum í næst efstu deild á síðustu þremur árum.

„Ég er mjög ánægður að fá góðan hafsent á besta aldri í liðið. Þegar við skoðuðum hann þá sáum við að hann tikkaði í mörg box hjá okkur,“ er haft eftir Hallgrími Jónassyni, þjálfara KA, á vef félagsins.  „Hans Viktor er stór og fljótur strákur sem er einnig góður á boltanum. Það er einnig mjög mikilvægt að ég heyrði úr mörgum áttum að hann er topp karakter. Ég hlakka til að vinna með honum og hef fulla trú á að næstu ár verði hans bestu á ferlinum.“

Harley Willard, sem er 26 ára Skoti, kom til KA frá Þór fyrir nýliðna leiktíð. Hann tók þátt í 32 leikjum KA í sumar og lék vel, sérstaklega seinni hluta keppnistímabilsins. Harley gerði sex mörk, þar af eitt í Evrópukeppninni. Willard kom fyrst til Íslands 2019 og lék með Víking frá Ólafsvík í þrjú sumur, 2019-2021 áður en hann gekk í raðir Þórsara.