Fara í efni
KA

Hallgrímur og Helena Kristín íþróttafólk KA

Íþróttafólk KA 2023, Helena Kristín Gunnarsdóttir og Hallgrímur Mar Steingrímsson. Ljósmyndir: Þórir Tryggvason

Helena Kristín Gunnarsdóttir blakari var kjörin íþróttakona KA 2023 og Hallgrímur Mar Steingrímsson knattspyrnumaður er íþróttakarl KA 2023. Kjörinu var lýst í samkomu í KA-heimilinu í dag, á 96 ára afmæli félagsins.

Íþróttafólki ársins hjá KA er lýst þannig á heimasíðu félagsins:

Helena Kristín Gunnarsdóttir – Helena Kristín var ein af lykilmanneskjunum í framúrskarandi blakliði KA þegar stelpurnar okkar unnu alla þá titla sem hægt var að vinna tímabilið 2022-2023. Stelpurnar urðu Meistarar meistaranna, Deildarmeistarar, Bikarmeistarar og að lokum Íslandsmeistarar. Helena var í lok tímabils valin í lið ársins í stöðu kants auk þess að vera valin besti leikmaður Úrvalsdeildarinnar af Blaksambandi Íslands.

Á núverandi tímabili er Helena fyrirliði KA og hefur leitt liðið áfram og sitja stelpurnar í efsta sæti deildarinnar ásamt Aftureldingu. Helena er gædd þeim eiginleikum að vera ótrúlega metnaðarsöm og drífandi leikmaður sem nær til allra sem með henni spila.

Hallgrímur Mar Steingrímsson – Hallgrímur Mar átti gott tímabil með KA í Bestu deildinni. Hann var stoðsendingarhæsti leikmaður Bestu deildarinnar með 13 stoðsendingar sem var jöfnun á stoðsendingameti efstu deildar. Í deild, bikar og Evrópukeppni skoraði hann 10 mörk. Hallgrímur Mar var lykilmaður í KA liðinu sem fór alla leið í þriðju umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar og í bikarúrslit.

Hallgrímur Mar var valinn leikmaður tímabilsins á lokahófi KA enda eitt af fjölmörgum góðum tímabilum hjá honum í gulu treyjunni. Erfitt er að finna félagsmet í meistaraflokki KA í knattspyrnu sem Hallgrímur Mar á ekki en hann er leikjahæsti, stoðsendingahæsti og markahæsti leikmaður KA frá upphafi.

KA heiðrar einnig lið ársins og þjálfara ársins auk þess sem Böggubikarinn er afhentur; það er farandbikar „sem veittur  er einstaklingum, pilti og stúlku, á aldrinum 16-19 ára sem þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega. Einstaklingum sem eru til fyrirmyndar á æfingum og í keppni og eru bæði jákvæð og hvetjandi. Böggubikarinn er veittur í minningu Sigurbjargar Níelsdóttur, Böggu, sem fædd var þann 16. júlí 1958 og lést þann 25. september 2011. Bróðir Böggu, Gunnar Níelsson, er verndari verðlaunanna en þau voru fyrst afhend árið 2015 á 87 ára afmæli KA,“ segir á heimasíðu KA.

Kvennalið KA í blaki sem varð Íslandsmeistari, bikarmeistari, deildarmeistari og Meistari meistaranna á síðasta keppnistímabili. Ljósmynd: Þórir Tryggvason

Kvennalið KA í blaki er lið ársins – „Meistaraflokkur kvenna í blaki átti satt að segja alveg magnað tímabil og vann alla titla sem hægt var að vinna á tímabilinu 2022-23. Meistari meistaranna, Deildar-, Bikar og Íslandsmeistarar. Í lok síðasta tímabils átti liðið þrjá fulltrúa þær Jónu Margréti uppspilara, Helenu Kristínu kant og Valdísi Kapitólu líberó í liði ársins sem valið er af Blaksambandi Íslands. Eins var Helena Kristín valinn leikmaður úrvalsdeildarinnar, það sýnir hversu ótrúlega sterku liði KA spilar fram þar sem það er fagmaður í hverri stöðu,“ segir á heimasíðu KA.

Miguel Mateo Castrillo þjálfari ársins, Helena Kristín Gunnarsdóttir íþróttakona KA 2023 og Eiríkur S. Jóhannsson, formaður KA, á samkomunni í dag. Ljósmynd: Þórir Tryggvason

Miguel Mateo Castrillo er þjálfari ársins hjá KA 2023. – Um hann segir á heimasíðu félagsins:

Miguel Mateo Castrillo hefur náð ótrúlegum árangri sem þjálfari karla- og kvennaliðs KA í blaki. Með stelpunum vann hann alla þá titla sem hægt var að vinna tímabilið 2022-23 er stelpurnar urðu Íslands-, Bikar og Deildarmeistarar auk þess að hampa titlinum Meistari Meistaranna.

Með karlaliðinu vann hann Íslandsmeistaratitilinn auk þess að vinna Meistari meistaranna nú í haust. Þar sem reynslumiklir leikmenn hafa leitað annað hefur Mateo enn og aftur sýnt styrk sinn sem þjálfari og fyllt vel í skörðin með yngri og efnilegum leikmenn sem heldur betur hafa stigið upp en það sem af er þessu tímabili situr kvennalið KA í efsta sæti úrvalsdeildarinnar.

Magnús Dagur Jónatansson og Lydía Gunnþórsdóttir sem hlutu Böggubikarinn í dag. Ljósmynd: Þórir Tryggvason

Handboltafólkið Lydía Gunnþórsdóttir og Magnús Dagur Jónatansson eru handhafar Böggubikarsins fyrir árið 2023. 

Um þau segir á heimasíðu KA:

Lydía er þrátt fyrir ungan aldur nú þegar orðin ein af máttarstólpum í meistaraflokksliði KA/Þórs. Hún er gríðarlega efnilegur leikstjórnandi, með mikinn leikskilning og er auk þess frábær skotmaður. Leiðtogahæfileikana hefur hún nóg af og var fyrirliði U-17 landsliðs kvenna sem gerði góða hluti á EM í sumar.

Þar stóð hún sig gríðarlega vel og var sjöunda markahæst á mótinu. Hún var einnig hluti af 3.fl liði KA/þór sem komumst í undanúrslit á Íslandsmótinu á síðasta keppnistímabili. Lydía er frábær félagsmaður og gefur mikið af sér

Magnús er ótrúlega vinnusamur og duglegur strákur með mikinn metnað. Hann er harður varnarmaður og fylginn sér þar. Í sókninni er hann ákveðinn og beinskeyttur með góðan skilning á leiknum. Þá hefur hann mikla leiðtogahæfni og ekki oft sem maður sér stráka á þessum aldri jafn góða í að stýra og stjórna. Þessir eiginleikar gerðu það að verkum að hann varð fyrirliði U-17 landsliðsins sem fór á tvö mót í sumar og gerði þar góða hluti.

Þá er Magnús hluti af 2006 liði KA sem er eitt allra besta yngri flokka sem sést hefur á Íslandi en það lið tapaði ekki leik í tvö ár í 4. flokki og vann alla titla sem voru í boði. Að auki sigraði liðið Partille Cup sem er stærsta handboltamót heims en þar var Magnús lykilmaður. Í dag er Magnús svo orðinn stór hluti af meistaraflokksliði KA þrátt fyrir að vera bara 17 ára gamall. Magnús er frábær fyrirmynd fyrir yngri iðkendur félagsins og hefur undanfarin ár verið duglegur að gefa af sér til þeirra, sem þjálfari margra yngri flokka.

Smellið hér til að sjá upplýsingar um alla sem voru tilnefndir í kjöri íþróttakonu KA.

Smellið hér til að sjá upplýsingar um alla sem voru tilnefndir í kjöri íþróttakarls KA.

Smellið hér til að sjá alla sem voru tilnefndir í kjöri um lið ársins hjá KA.

Smellið hér til að sjá alla sem voru tilnefndir í kjöri um þjálfara ársins hjá KA.

Smellið hér til að sjá alla sem voru tilnefndir til Böggubikarsins.