Fara í efni
KA

„Gul viðvörun er vel við hæfi í dag!“

Eiríkur S. Jóhannsson, formaður Knattspyrnufélags Akureyrar, var himinlifandi í dag eins og gefur að skilja, eftir að hann skrifaði undir samning við Akureyrarbæ um mikla uppbyggingu á félagssvæði KA. Nýr keppnisvöllur með gerivgrasi er í augsýn, flóðlýsing, áhorfendastúka og stór bygging fyrir félagsaðstöðu, búningsklefum, skrifstofum og fleiru.

„Þetta er fallegur dagur; gul viðvörun er vel við hæfi á Íslandi í dag!“ sagði formaðurinn og hló þegar Akureyri.net ræddi við hann. Veðrið var ekki gott en guli KA-liturinn í viðvöruninni er táknrænn. „Mér finnst viðvörunin lýsandi fyrir daginn í dag. Akureyri er gul í dag og restin af Íslandi líka. Þetta er stór dagur fyrir KA og fyrir Akureyri.“

Stefnt er að því að nýja gervigrasið verði notað á N1 móti KA í júlí en Eiríkur segir KA-menn ekki geta notað völlinn fyrir deildarleiki meistaraflokks fyrr en eftir tvö til þrjú ár.

Formaðurinn meyr

Eiríkur segir miklar tilfinningar fylgja því að ganga endanlega frá samningi eins og þeim sem hér um ræðir. Akureyrbær er með ákveðna fyrirvara í samningnum varðandi fjármálin, komi upp sérstakar aðstæður í samfélaginu eins og dæmi eru um „og ég skil það að sjálfsögðu sem skattgreiðandi,“ segir Eiríkur. „Fyrir mér er þetta þó auðvitað endanlegt og uppbyggingin verður. Við KA-menn erum alveg í skýjunum, erum alveg rosalega ánægðir með þetta og persónulega er ég meyr í dag, ég verð að viðurkenna það. Fyrir mig og alla þá sem voru formenn á undan mér er þetta mjög merkilegur og mikilvægur dagur.“

Eflir og viðheldur félagsandanum

Fyrir nokkrum misserum var gerður samningur um knattspyrnuvöll og áhorfendastúku á KA-svæðinu en í endanlegan samning var nýlega bætt við millibyggingu sem tengir íþróttahús félagsins við áhorfendastúkuna. Eiríkur segir bygginguna leysa ýmis vandamál, til dæmis fjölgi búningsklefum en þeir hafi verið allt of fáir fyrir starfsemina. „Þarna verður líka júdósalur í löglegri stærð og félagsaðstaða sem gerir það að verkum að við getum farið að halda alla okkar viðburði þarna uppfrá. Þetta hjálpar okkur mjög við að efla og viðhalda félagsandanum í félaginu,“ segir formaður KA.

Eiríkur minnir á að fyrir mörgum árum hafi verið tekin ákvörðun um að byggja upp félagskjarna fyrir bæði Þór og KA og nú sjái KA-menn loks fyrir endann á því. Langþráður draumur sé að rætast.

„Ég þakka Akureyrarbæ fyrir stórhug. Samstarfið hefur verið þótt það hafi tekið langan tíma, og ég óska Akureyringum til hamingju með þetta góða verkefni,“ segir Eiríkur S. Jóhannsson.

Frétt Akureyri.net fyrr í dag: Keppnisvöllur, stúka og félagsaðstaða fyrir 2,6 milljarða

Eiríkur S. Jóhannsson formaður KA og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri eftir undirritun samningsins í dag.