Fara í efni
KA

Leik KA og HK flýtt – gul veðurviðvörun í gildi

Þórir Tryggvason ljósmyndari var í hópi sjálfboðaliða sem unnu við það í vikunni að búa KA-svæðið undir fyrsta leik í Bestu deildinni. Þórir gæti þurft að munda skófluna á ný eftir helgina. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Leik KA og HK í fyrstu umferð Bestu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu á morgun hefur verið flýtt. Hann átti að hefjast kl. 17.00 en flautað verður til leiks kl. 13.00 á Greifavelli KA. 

Veðurspá fyrir morgundaginn er ekki góð. Raunar er gul veðurviðvörun í gildi fyrir Norðurland eystra allt frá því kl. 21.00 í kvöld til miðnættis annað kvöld. Leiknum er flýtt þar sem talið er að veðrið verði skárra fyrri hluta dags.

Á vef Veðurstofunnar sagði í morgun:

Norðaustan 10-18 metrar á sekúndu og skafrenningur eða él, en sem fer yfir í samfellda snjókoma í nótt og á morgun. Hvassast tll fjalla þar sem reikna má með vindhviðum að 30 metrum á sekúndu. Samgöngutruflanir líklegar.

Þar var og birt þessi athugasemd veðurfræðings:

Gengur í norðaustanhvassviðri eða -storm suðaustanlands í dag, en hríðarveður á norðaustanverðu landinu, sem stendur til sunnudagskvölds. Varasamt ferðaveður.

Vaxandi norðaustanátt, 10-15 metrar á sekúndu og éljagangur upp úr hádegi. Norðaustan 10-18 og snjókoma á morgun en heldur hægari vindur annað kvöld. Frost 0 til 7 stig, kaldast í innsveitum.

Spennan hefur magnast jafnt og þétt  í aðdraganda þess að Íslandsmótið hefjist. Gera má ráð fyrir að margir leggi leið sína á völlinn á morgun og rétt að hvetja fólk til þess að búa sig vel. Vert er að taka til föðurlandið, þykku úlpuna, húfu og vettlinga áður en fjörið hefst. 

HVAÐ MERKIR GUL VIÐVÖRUN?

  • Á vef Veðurstofunnar segir: Spáð er veðri sem getur haft talsverð samfélagsleg áhrif og valdið töfum, slysum eða tjóni ef aðgát er ekki höfð. Áhrif á innviði, þjónustu og samgöngur á landi geta orðið talsverð en eru líkleg til að verða staðbundin. Slík veður eru nokkuð algeng og krefjast árvekni við skipulagningu þjónustu, atburða og ferða.
  • Gul viðvörun getur einnig verið gefin út fyrir tiltekin spásvæði til vara við mjög áhrifamiklu veðri 3-5 daga fram í tímann. Gangi spár eftir eru miklar líkur á að viðvörunargildi hækki þegar nær dregur.