Fara í efni
KA

Guðmundur „vippaði ekki – aldrei þessu vant“

Úrklippa úr Degi; Guðmundur Baldvin Guðmundsson svífur þarna inn í teiginn og skorar fyrsta markið í handboltaleik í Íþróttahöllinni. Kristján G. Arngrímsson tók myndina.

„Ég man þetta eins og gerst hafi í gær,“ segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson þegar Akureyri.net bað hann að rifja upp fyrsta markið sem skorað var í handboltaleik í Íþróttahöllinni á Akureyri. Það var einmitt þessi stór og stæðilegi línumaður í liði KA, síðar bæjarfulltrúi á Akureyri, sem gerði fyrsta markið.

40 ár voru á mánudaginn síðan Íþróttahöllin var tekin í notkun, eins og Akureyri.net rifjaði upp í gær. Eftir ræðuhöld sýndu ýmsir íþróttamenn listir sínar, þar á meðal handboltamenn Akureyrarfélaganna.

Akureyrarblaðið Dagur sagði svo frá: „Fyrst kepptu meistaraflokkar Þór og KA í handbolta. Þrátt fyrir það að Þór hefði forustu mest allan leikinn sigraði KA með einu marki. Leikið var í 2x20 mín. Þá sýndu félagar úr badminton félaginu snilli sína, og svo gerðu einnig stúlkur frá Fimleikaráði Akureyrar. Næst var blak og þar leiddu saman hesta sína öldungalið Skautafélags Akureyrar og Sundfélagsins Óðins, og einnig kvennalið frá Eik og KA. Að lokum kepptu pollar í 5. flokki í innanhússknattspyrnu frá KA og Þór. KA strákarnir unnu með þremur mörkum gegn tveimur.“

Svo mörg voru þau orð. Dagur sagði að um 1.200 manns hefði lagt leið sína í Höllina daginn sem dyr hennar voru opnaðar fyrir almenning í fyrsta skipti, sunnudaginn 5. desember 1982.

En aftur að fyrsta handboltaleiknum. Guðmundur Baldvin segir svo frá:  „Þór byrjaði í sókn og Siggi vinur minn Páls vildi eiga fyrsta markið og skaut ótímabæru skoti! Við fórum í sókn og mig minnir að það hafi verið Daninn Kjeld Mauritsen sem átti þessa fínu sendingu inn á mig,“ segir hann. Spurður hvort hann muni eftir þessu sögulega skoti sagði Guðmundur Baldvin sér það í fersku minni:  „Ég vippaði ekki yfir markmanninn – aldrei þessu vant!“

Á myndinni í Degi, sem ljósmyndarinn Kristján Arngrímsson tók, svífur Guðmundur inn af línunni. Þórsararnir eru áðurnefndur Sigurður Pálsson og Gunnar Malmquist Gunnarsson.