Fara í efni
KA

Grátlegt tap og KA-menn úr leik

Jónatan Magnússon, þjálfari KA, og hans menn eru komnir í sumarfrí. Ljósmynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

Handboltalið KA er komið í sumarfrí eftir grátlegt, eins marks tap fyrir Haukum í þriðja leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í kvöld. Haukur höfðu eins marks forskot í hálfleik, 15:14, og unnu með sama mun – 31:30.

Leikurinn á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld var ekki síður spennandi en tvær fyrri viðureignir liðanna í úrslitakeppninni. Aldrei munaði meira en tveimur mörkum á annan hvorn veginn fyrr en undir lokin þegar Haukar komust fjórum mörkum yfir. Þá voru innan við 10 mínútur eftir en sá tími reyndist KA-mönnum nægur til þess að spennan yrði nánast áþreifanleg á ný.

KA fékk síðustu sókn leiksins sem endaði með því að Ólafur Gústafsson sendi á Einar Birgi Stefánsson í dauðafæri á línunni. Þessi snjalli leikmaður þrumaði rétt framhjá markinu í þann mund sem leiktíminn rann út og Haukur stigu sigurdans. Vonbrigði KA-manna leyndu sér ekki enda niðurstaðan grátleg; þeir eru úr leik eftir hetjulega baráttu.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna