Fara í efni
KA

Grátlegt tap KA fyrir KR – MYNDIR

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn urðu að bíta í það súra epli að tapa 1:0 fyrir KR-ingum í gærkvöldi í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, á nýja Greifavellinum. KA var miklu meira með boltann og fékk góð færi til að skora en tókst ekki.

Gestirnir, sem lögðu mikla áherslu á vörnina eftir að hafa skorað snemma – stilltu langtímum saman upp einskonar handboltavörn – fengu reyndar líka ákjósanleg marktækifæri. KR-ingar höfðu ekki tapað í síðustu sex heimsóknum til þeirra gulu og bláu og héldu sínu striki.

Það sannaðist í gær að fegurðin skiptir ekki alltaf máli og þegar upp er staðið er aðeins spurt að einu: hve mörg voru mörkin? En sannarlega var nóg af eftirminnilegum og umdeildum atvikum í leiknum og Egill Arnar Sigurþórsson, dómari leiksins, var ekki efstur á vinsældalista KA-manna í gærkvöldi, svo mikið er víst.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

_ _ _

ÁSGEIR MEIDDUR AF VELLI
Ásgeir Sigurgeirsson, fyrirliði KA, meiddist á hné snemma leiks og varð að fara af velli. Hann kvaðst hafa fengið högg á hnéð og gekk við hækju að leik loknum. Ekki liggur fyrir hve alvarleg meiðslin eru en Ásgeir fer í ítarlega skoðun eins fljótt og auðið er. Það yrði sannarlega mikil blóðtaka fyrir KA-menn ef framherjinn öflugi lenti á sjúkralistanum. Hann sleit krossband í hné fyrir fjórum árum en vonandi eru meiðslin aðeins smávægileg að þessu sinni.

_ _ _

EINA MARKIÐ
Daninn Kennie Chopart hefur komið mikið við sögu í leikjum KA og KR síðustu ár, eins og rifjað var upp á Akureyri.net í gær – hér – og það var hann sem lagði upp eina mark leiksins í gær. Chopart lék auðveldlega á Hallgrím Mar Steingrímsson, sem var nýlega kominn inn á í stað Ásgeirs fyrirliða, á hægri kantinum, lék upp að endamörkum og sendi boltann út í teig þar sem Aron Þórður Albertsson var óvaldaður og skoraði af öryggi. Afleitur varnarleikur KA-liðsins.

_ _ _

VÍTI?
Nökkvi Þeyr Þórisson féll í vítateig KR á 27. mínútu þegar hann var í skotstöðu, eftir góða sendingu frá Elfari Árna, og vildi fá vítaspyrnu en Egill dómari úthlutaði KA-mönnum hornspyrnu og virtist það rétt niðurstaða. Atli Sigurjónsson náði að pota í boltann á undan Nökkva.

_ _ _

STANGARSKOT
Nökkvi Þeyr Þórisson þrumaði í stöng utan úr teig á 28. mínútu eftir að KR-ingurinn Arnór Sveinn Aðalsteinsson afhenti honum boltann á silfurfati. Nokkrum mínútum síðar átti Hallgrímur Mar Steingrímssdon svo glæsilegt skot utan teigs og boltinn small í sömu stöng. KR-ingar sluppu þar með skrekkinn í tvígang. Atli Sigurjónsson KR-ingur skaut svo í þessa sömu stöng í seinni hálfleik!

_ _ _

FRÁBÆR VARNARLEIKUR BRKOVIC
KR-ingurinn Stefan Alexander Ljubicic komst einn inn fyrir vörn KA og inn í vítateig snemma í seinni hálfleik, eftir langa sendingu Arons Kristófers Lárussonar, en Dusan Brkovic hljóp hann uppi og komst fyrir boltann rétt áður en Stefan náði skoti á markið.

_ _ _

STÓRHÆTTA VIÐ MARK KA
KR-ingar voru aðgangsharðir við mark KA eftir hornspyrnu á 59. mínútu. Eftir klafs í markteignum náði Sveinn Margeir Hauksson að bjarga á línu að því er virtist.

_ _ _

UMDEILT ATVIK
Arnór Sveinn Aðalsteinsson braut á Nökkva Þey rétt aftan við miðju þegar ein og hálf mínúta var liðin af fimm mínútna uppbótartíma; Nökkvi var á fleygiferð fram völlinn eftir sendingu Jakobs Snæs og Arnór stöðvaði hann viljandi. Egill Arnar dómari flautaði umsvifalaust en hefði betur beitt hagnaðarreglunni því Hallgrímur Mar fékk boltann á vinstri kantinum og gat haldið sókninni áfram. Arnór Sveinn var ekki aftasti maður KR og fékk því gult spjald fyrir brotið en ekki rautt.

_ _ _

ÁTTI KA AÐ FÁ VÍTI?
Hallgrímur Már tók aukaspyrnuna sem dæmd var á Arnór Svein fyrir brotið á Nökkva Þey, sendi inn á teig og Rodri lagði boltann fyrir slóvenska varnarmanninn Gaber Dobrovoljic, sem var með KA í fyrsta skipti í gær. Þegar Dobrovoljic skaut að marki henti Atli Sigurjónsson sér fyrir hann, Slóveninn datt og KA-menn heimtuðu víti en fengu aðeins hornspyrnu. 

Ekki sést á myndunum hvort Atli fer með fótinn í leikmanninn eða kom við boltann en myndband af atvikinu má sjá hér á twitter. Dæmi hver fyrir sig.

_ _ _

ARNAR FÉKK AFTUR RAUTT SPJALD
Arnar Grétarsson þjálfari KA mótmælti því kröftuglega að lið hans skyldi ekki fá víti í lokin og svo fór að dómarinn sýndi þjálfaranum rauða spjaldið og vísaði honum þar með á brott eftir ábendingu Sveins Arnarssonar fjórða dómara. Arnar fékk einnig rautt spjald í fyrri leiknum gegn KR í sumar.