Fara í efni
KA

Góður endasprettur bjargaði KA/Þór

Hildur Lilja Jónsdóttir lék í vinstra horninu eftir að Rakel Sara meiddist og gerði fimm mörk. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Íslandsmeistarar KA/Þórs tryggðu sér sigur á Haukum, 30:27, með frábærum endaspretti eftir gríðarlega spennu í KA-heimilinu í kvöld, í fyrsta leik liðanna í umspili um sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins í handbolta.

KA/Þór varð í þriðja sæti deildarinnar en Haukar í því sjötta en vart mátti á milli sjá hvort liðið átti að vera betra; Stelpurnar okkar byrjuðu reyndar mun betur, komust í 5:1, en svo voru Haukarnir allt í einu komnir upp að hlið meistaranna, 6:6, KA/Þór komst yfir á ný en Haukarnir voru komnir með forystu aftur þegar fyrri hálfleiknum lauk, 16:15.

Sama spenna hélt áfram í seinni hálfleik, KA/Þór þó lengst af yfir en þegar nokkrar mínútur voru eftir var staðan 27:26 fyrir Hauka. Meistararnir skiptu þá í efsta gír og gerðu fjögur síðustu mörkin.

Landsliðskon­an Rakel Sara Elvars­dótt­ir, örvhenti hornamaðurinn snjalli, meidd­ist seint í fyrri hálfleik og lék ekki meira. Hin bráðefnilega Hild­ur Lilja Jóns­dótt­ir leysti Rakel Söru af, kom inn með látum og gerði alls fimm mörk.

Sigra þarf í tveimur leikjum til að komast í undanúrslit. Liðin mætast aftur á sunnudaginn í Hafnarfirði. KA/Þór fer áfram með sigri þar en komi til þriðja leiksins verður hann næsta þriðjudag í KA-heimilinu.

Mörk KA/Þórs: Unnur Ómarsdóttir 8, Rakel Sara Elvarsdóttir 5, Hildur Lilja Jónsdóttir 5, Rut Jónsdóttir 4 (2 víti), Ásdís Guðmundsdóttir 2, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 2, Aldís Ásta Heimisdóttir 2, Martha Hermannsdóttir 2 (2 víti).

Smellið hér til að sjá alla tölfræði.

Aldís Ásta Heimisdóttir í dauðafæri á línunni í kvöld. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.