Fara í efni
KA

Góð frammistaða KA en grátlegt tap

Ívar Örn Árnason, hér í baráttu við Blika á heimavelli í fyrrasumar, lék mjög vel í kvöld. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn gengu sárir og svekktir af velli í Kópavogi í kvöld eftir 2:1 tap fyrir Breiðabliki í Bestu deild karla í knattspyrnu. Þetta var mjög líklega besta frammistaða þeirra í deildinni í sumar en klaufaskapur og ótrúleg óheppni urðu þess valdandi að Breiðablik sigraði.

Blikarnir hófu leikinn af fítonskrafti og ógnuðu marki gestanna nokkrum sinnum en eftir erfiða byrjun unnu KA-strákarnir sig inn í leikinn.

Allt stefndi í að markalaust yrði þegar liðin gengju til búningsherbergja að loknum fyrri hálfleik en á lokamínútunum gerði hægri bakvörður KA, hinn ungi og bráðefnilegi Kári Gautason, ótrúleg mistök; Blikarnir sóttu hægra megin sem endaði með því að föst sending kom fyrir KA-markið og Kári, sem virtist ekki átta sig á því að hann var aleinn, hugðist líklega spyrna boltanum aftur fyrir endamörk en þrumaði þess í stað í tómt markið.

Hallgrímur Mar Steingrímsson jafnaði fyrir KA með laglegu marki eftir góða sókn og sendingu Harley Willard snemma í seinni hálfleik og skömmu síðar gaf Hallgrímur inn á teig af vinstri kantinum og Ásgeir Sigurgeirsson, sem var í dauðafæri í markteignum, skaut hárfínt yfir þverslána. Fyrirliðinn fær varla mörg betri færi í sumar og grátlegt að þetta skyldi ekki nýtast.

Viktor Karl Einarsson gerði svo sigurmark Blika á 74. mín. eftir glæsileg tilþrif í vítateignum. Hann fór illa með þrjá KA-menn og skoraði með þrumuskoti.

KA-maðurinn Viðar Örn Kjartansson kom af varamannabekknum þegar tæpur hálftími var eftir og á síðustu augnablikum uppbótartíma komst framherjinn í gott færi en Anton Ari markvörður Breiðabliks sá við honum og varði.

KA-menn voru afar óánægðir með að Erlendur dómari Eiríksson skyldi ekki blása í flautu sína eftir viðskipti Viðars Arnar og Damir Muminovic þarna í lokin. Damir snerti Viðar augljóslega með annarri hendi fyrir utan vítateig en Viðar hélt áfram, kom sér í góða stöðu og skaut. KA-menn hefðu ekki orðið hressir með dómarann hefði hann flautað en Viðar síðan komið boltanum í markið. Svo virtist reyndar sem þeir teldu að Damir hefði líka brotið á Viðari í þann mund sem hann skaut að marki en ómögulegt var að sjá það í sjónvarpsútsendingu.

Eftir tapið í kvöld er KA enn í neðsta sæti deildarinnar með fimm stig að loknum 10 leikjum. Frammistaðan var hins vegar góð, sem fyrr segir; þeim sem þetta skrifar fannst mun meiri ákefð og betri heildarbragur á liðinu í síðasta leik, sigrinum á Fram í bikarkeppninni, en áður í sumar og leikmenn voru í ámóta gír í kvöld og þá. Leikurinn gefur því vonir um að stigunum fari að fjölga. 

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna