Fara í efni
KA

Góð frammistaða en KA tapaði fyrir Víkingi

KA-menn fagna marki Sveins Margeirs Haukssonar, lengst til hægri, þegar aðeins sjö mínútur liðnar af leiknum á Víkingsvellinum í dag. Mynd: fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

KA-menn töpuðu 4:2 fyrir Íslandsmeisturum Víkings á útivelli í dag, í Bestu deildinni í knattspyrnu, þrátt fyrir góða frammistöðu. KA er því enn með aðeins eitt stig en Víkingar með fullt hús, 12 stig, eftir fjórar umferðir.

Víkingur er besta lið landsins um þessar mundir og án efa erfiðast allra heim að sækja. Því er ekki verra að hafa einhverja heppni með sér í liði og óhætt er að segja að sú var ekki raunin hjá KA-mönnum í dag. Bæði fengu þeir á sig afar ódýrt víti, svo ekki sé meira sagt, og gerðu sjálfir í tvígang tilkall til þess að fá víti, án árangurs.

Sveinn Margeir Hauksson kom KA í 1:0 strax á sjöundu mínútu en Íslandsmeistararnir jöfnuðu á 20. mín. þegar Daniel Djuric skoraði úr afar umdeildri vítaspyrnu. Dómarinn taldi Ingimar Stöle hafa brotið á Ara Sigurpálssyni en erfitt er að sjá fyrir hvaða sakir vítið var dæmt, þrátt fyrir að hafa skoðað sjónvarpsupptöku af atvikinu margoft.

Skömmu eftir hið umdeilda atvik vildu KA-menn fá víti þegar þeir töldu brotið á Sveini Margeiri Haukssyni en uppskáru ekki annað en gult spjald á Hallgrím Jónasson þjálfara fyrir mótmæli. Síðar í leiknum vildu KA-menn aftur fá víti en fengu ekki og voru vægast sagt óhressir með frammistöðu dómaranna.

Víkingur komst í 2:1 nokkrum mínútum eftir að Djuric jafnaði úr vítinu. Pablo Punyed tók hornspyrnu frá hægri og Nikolaj Hansen skallaði boltann í netið. Þar var KA-vörnin illa á verði því Hansen var óvaldaður á markteignum þegar hann skallaði.

Rétt fyrir lok fyrri hálfleiksins versnaði staða KA enn þegar Aron Elís Þrándarson gerði þriðja mark Víkings með hnitmiðuðu skoti utan úr teig eftir góða fyrirgjöf. Þar voru KA-menn aftur illa á verði.

KA-strákarnir byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti en Víkingar bættu hins vegar við marki. Daniel Djuric var þar á ferð, gerði annað mark sitt í leiknum og breytti stöðunni í 4:1.

Framherjarnir Elfar Árni Aðalsteinsson og Viðar Örn Kjartansson komu inn á hjá KA snemma í seinni hálfleik. Elfar Árni var óheppinn að skora ekki á 70. mín. Hann skallaði þá í þverslá Víkingsmarksins, þaðan hrökk boltinn fyrir fætur varnarmannsins Hans Viktors Guðmundssonar en hann var ekki viðbúinn og skaut yfir opið markið.

Nokkrum mín. síðar hafði Elfar Árni erindi sem erfiði í teignum. Ívar Örn sendi boltann fyrir markið, Elfar Árni skallaði aftur og að þessu sinni fór boltinn í netið. Staðan orðin 4:2 en nær komust KA-menn ekki. 

Uppskera KA-strákanna er rýr það sem af er en miðað við frammistöðuna í dag ættu þeir að horfa bjartsýnni fram á veginn en stöðutaflan gefur tilefni til. Fróðlegt verður að sjá næsta leik, þegar KR-ingar koma í heimsókn um næstu helgi. 

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna