Fara í efni
KA

Góð Danmerkurferð Norðurlandsúrvals

Íslensku strákarnir og þjálfarar þeirra með leikmönnum og þjálfurum AB.

Úrvalshópur knattspyrnudrengja frá félögum á Norðurlandi er nýlega kominn heim úr vel heppnaðri æfingaferð til Danmerkur. Í hópnum voru 18 leikmenn, 15 og 16 ára, ásamt þjálfarateymi og fararstjóra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá þjálfurunum.

„Um er að ræða úrvalshóp drengja úr félögum á Norðurlandi en hópurinn var valinn í framhaldi af landshlutaæfingum vetursins, afreksæfingum á landsbyggðinni sem er hluti af afreksstefnu KSÍ,“ segir í tilkynningunni.

„Búið var að skipuleggja æfingaleiki gegn jafnöldrum hjá dönskum félagsliðum, annars vegar hjá Íslendingaliðinu Lyngby sem leikur í efstu deild í Danmörku og hefur fjölda Íslendinga innanborðs. Hins vegar hið sögufræga lið AB, Akademisk Boldklub sem í dag leikur í dönsku C-deildinni.

Strákarnir flugu utan með NiceAir á sunnudag og komu sér fyrir í Kaupmannahöfn. Á mánudag æfði hópurinn saman á æfingasvæði í Valby þar sem lokaundirbúningur fyrir leikina fór fram.

Á þriðjudag var leikið gegn unglingaliði Lyngby og lauk leiknum með 3-1 sigri heimamanna. Mark Norðurlandsúrvalsins skoraði Jakob Gunnar Sigurðsson. Akademían hjá Lyngby þykir ein sú besta í Danmörku og því var um krefjandi verkefni að ræða fyrir íslensku drengina en fórst þeim það vel úr hendi þrátt fyrir tap.

Á miðvikudag var leikið gegn AB í Gladsaxe og þar höfðu íslensku strákarnir betur með þremur mörkum gegn einu í hörkuleik þar sem Mikael Breki Þórðarson, Halldór Ragúel Guðbjartsson og Pétur Orri Arnarson sáu um markaskorun íslenska liðsins.

Íslenski hópurinn með leikmönnum og þjálfurum Lyngby.

Mikil ánægja var meðal þjálfara hvernig til tókst en að enda landshlutaæfingar KSÍ með Danmerkurferð var ákveðið tilraunaverkefni að frumkvæði yngri flokka þjálfara á Norðurlandi. Þjálfarar Norðurlandsúrvalsins voru Arnar Geir Halldórsson, yfirþjálfari hjá Þór og Eiður Ben Eiríksson, afreksþjálfari hjá KA. Runólfur Trausti Þórhallsson, markmannsþjálfari í akademíu FCK, slóst í hóp með þjálfarateyminu í Danmörku.

Í kjölfarið munu stelpur á sama aldri halda í sams konar ferð en þær munu leika gegn jafnöldrum sínum hjá Bröndby og Nordsjælland.

Leikmannahópurinn var skipaður eftirtöldum leikmönnum

  • Aron Bjarki Kristjánsson
  • Aron Geir Jónsson
  • Ásbjörn Líndal Arnarsson
  • Breki Snær Ketilsson
  • Davíð Leó Lund
  • Egill Orri Arnarsson
  • Einar Freyr Halldórsson
  • Frank A. Satorres Cabezas
  • Halldór Ragúel Guðbjartsson
  • Jakob Gunnar Sigurðsson
  • Jóhann Mikael Ingólfsson
  • Mikael Breki Þórðarson
  • Natan Aðalsteinsson
  • Pétur Orri Arnarson
  • Rúnar Snær Ingason
  • Sigursteinn Ýmir Birgisson
  • Sverrir Páll Ingason
  • Þórir Hrafn Ellertsson