Fara í efni
KA

Gleðileg sumarbyrjun í boði stelpnanna í KA/Þór

Engu skipti til hvaða ráða Stjörnumenn gripu í kvöld, ekkert gekk. Ida Hoberg, sem hér fær óblíðar viðtökur, gerði sjö mörk. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Kvennalið KA/Þórs í handbolta tryggði sér í dag oddaleik við Stjörnuna í úrslitakeppni Íslandsmótsins. Liðin mætast þriðja sinni í Garðabæ á sunnudaginn og sigurvegarinn þá kemst í undanúrslit.

Stundum gengur nánast allt upp hjá íþróttaliði og einstaka sinnum varla nokkur skapaður hlutur. Óvanalegt er að það gerist í sama leiknum en ný dæmi sanna að það er ekki óhugsandi.

Að kvennalið KA/Þórs í handbolta rótbursti Stjörnuna með 16 marka mun í úrslitakeppni Íslandsmótsins í handbolta án þess að Rut Jónsdóttir, besti leikmaður landsins, taki þátt í eina sekúndu hljómar ótrúlega. Ef til vill ámóta og að karlalið Hauka vinni deildarmeistara Vals með 19 marka mun. Fyrir rúmum sólarhring hefði varla nokkur trúað spámanni sem þættist sjá þetta fyrir en hvort tveggja hefur þó gerst síðan.

Matea Lonac var frábær í dag. Hér ver hún skot af línu frá leikmanni Stjörnunnar.

Stelpurnar okkar í KA/Þór töpuðu með fimm marka mun fyrir Stjörnunni í Garðabæ fyrir fáeinum dögum og urðu því að vinna í KA-heimilinu til að eiga möguleika á oddaleik í Garðabæ og þar með sæti í undanúrslitum. Og í tilefni sumarkomunnar buðu heimamenn upp á nokkurs konar flugeldasýningu innanhúss og unnu 34:18. Já, munurinn var 16 mörk í leikslok!

Í stuttu máli sagt var lið KA/Þórs frábært í dag. Þetta var lang besti leikur liðsins í vetur. Varnarleikurinn var stórbrotinn, Matea Lonac fór hamförum í markinu og sóknin gekk vel.

Lydía Gunnþórsdóttir gerði sex mörk úr jafn mörgum skotum, þar af fimm úr vítum. Hér skorar hún eftir gegnumbrot í seinni hálfleiknum.

Staðan var orðin 9:1 eftir korter og í hálfleik stóðu leikar 17:7. Þrátt fyrir 10 marka mun var enginn á þeim buxunum að slaka á í seinni hálfleik, stelpurnar stigu jafn fast á bensíngjöfina þá og í fyrri hluta leiksins og þegar upp var staðið var munurinn orðinn 16 mörk. Stórglæsilegur sigur í höfn.

Rut Jónsdóttir lék ekkert með í dag sem fyrr segir. Hún meiddist í leik liðanna í Garðabæ en vonast er til þess að hún verði leikfær á sunnudaginn.

 Nathalia Soares, sem glímir hér við varnarmenn Stjörnunnar, var öflug bæði í sókn og vörn í dag.

Mörk KA/Þórs: Ida Hoberg 7, Nathalia Soares 7, Lydía Gunnþórsdóttir 6 (5 víti), Hildur Lilja Jónsdóttir 4, Anna Þyrí Halldórsdóttir 3, Aþena Einvarðsdóttir 3, Kristín A. Jóhannsdóttir 2, Júlía Björnsdóttir 1, Anna Mary Jónsdóttir 1.

Varin skot: Matea Lonac 17 (53,1%).

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.