Fara í efni
KA

Glæsilegur sigur KA á FH og spennan í hámarki

Elfar Árni Aðalsteinsson sem hér er með boltann í leiknum gegn Stjörnunni um helgina gerði eitt mark þá og tvö í Hafnarfirði í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn höfðu sannarlega erindi sem erfiði þegar þeir sóttu FH-inga heim í dag í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Elfar Árni Aðalsteinsson gerði tvö mörk í leiknum og Jóan Símun Edmundsson eitt – sitt fyrsta í deildinni – og KA vann glæsilegan 3:0 sigur.

KA varð að sigra í dag til að eiga möguleika á að verða í hópi sex efstu liða deildarinnar þegar henni verður skipt í tvennt fyrir síðasta hlutann, eftir lokaumferðina á sunnudaginn. KA-menn þurfa einnig að sigra Fylki í Reykjavík á sunnudaginn og treysta á að KR tapi gegn ÍBV í Eyjum eða að FH tapi fyrir Breiðabliki. Markamunur mun þá ráða því hvar liðin lenda, en eitt þeirra mun sitja eftir með sárt ennið. 

  • 0:1 – Ásgeir Sigurgeirsson náði boltanum skammt utan vítateigs FH-inga, sneri af sér varnarmann og renndi boltanum til hægri inn á vítateig. Færeyingurinn Jóan Símun Edmundsson lagði boltann fyrir sig og skoraði af miklu öryggi undir markvörðurinn sem kom út á moti. Þetta var á 31. mín. 
  • 0:2 – Komið var í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar KA fékk aukaspyrnu hægra megin á vellinum, töluvert utan vítateigs. Harley Willard spyrnti inn á teig, FH-ingur skallaði frá, beint á Jóan Símun rétt utan teigs. Hann renndi strax á Willard sem sendi boltann að þessu sinni yfir á markteigshornið fjær þangað sem Elfar Árni Aðalsteinsson hafði laumaði sér, var einn og óvaldaður og skoraði laglega.
  • 0:3  – Það var svo á 56. mínútu að Elfar Árni gerði síðara mark sitt og gulltryggði dýrmætan sigur KA. Willard sendi boltann á Hallgrím Mar fyrir utan vítateig og Hallgrímur renndi til vinstri inn á teig á Elfar Árna, sem lagði boltann fyrir sig og skrúfaði hann svo efst í fjærhorn. Stórglæsilegt mark!

Hvað þarf til að KA verði í efri hlutanum?

FH er í fimmta sæti Bestu deildarinnar með 31 stig, KR hefur einnig 31 stig en er með lakari markatölu og KA er í sjöunda sæti með 28 stig.

Þetta eru leikirnir sem skipta KA-menn máli á sunnudaginn:

  • Fylkir - KA
    KA er með átta mörk í mínus.
  • Breiðablik - FH
    FH er með fimm mörk í mínus.
  • ÍBV - KR
    KR er með sjö mörk í mínus.

Gríðarlega spennandi verður að fylgjast með lokaumferðinni því markamunur gæti ráðið úrslitum. 

Tökum dæmi:

  • KA vinnur Fylki með tveggja marka mun - KA yrði með 31 stig og sex mörk í mínus
  • Breiðablik vinnur FH með eins marks mun - FH yrði með 31 stig og sex mörk í mínus
  • ÍBV vinnur KR með eins marks mun - KR yrði með 31 stig og átta mörk í mínus

Skv. reglugerð KSÍ ræðst staða liða í deildinni af þessum atriðum, í þessari röð:

  • Fjöldi stiga 
  • Markamismunur (skoruð mörk að frádregnum fengnum mörkum)
  • Fjöldi skoraðra marka
  • Fjöldi stiga í innbyrðis leikjum
  • Markamismunur í innbyrðis leikjum
  • Fjöldi skoraðra marka í innbyrðis leikjum
  • Fjöldi skoraðra marka á útivelli í innbyrðis leikjum

_ _

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna úr viðureign FH og KA

Smellið hér til að sjá stöðuna í deildinni