Fara í efni
KA

Fyrstu leikir Þórs og Þórs/KA í Boganum

Þór og KA mættust í Boganum í úrslitaleik Kjarnafæðismótsins um daginn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Fyrstu heimaleikir Þórs/KA og Þórs á Íslandsmótinu í knattspyrnu verða í Boganum, að sögn Reimars Helgasonar, framkvæmdastjóra Þórs. Grasvöllur félagsins (SaltPay völlurinn) verður ekki tilbúinn alveg á næstunni undir það álag sem fylgir því að bæði liðin leiki þar auk þess að æfa á vellinum.

Reimar segir gert ráð fyrir því að fyrsti leikurinn á aðalvelli Þórs (SaltPay vellinum) verði 14. maí þegar Þór/KA tekur á móti Selfossi í Bestu deild kvenna.

Leikur Þórs/KA og Vals í Bestu deild kvenna 3. maí og leikur karlaliðs Þórs við Kórdrengi í Lengjudeildinni 6. maí verða því báðir í Boganum.

„Völlurinn myndi alveg ráða við að þar yrði spilað en öll önnur æfingasvæði okkar eru skelfileg og liðin verða þess vegna líka að æfa á vellinum. Við teljum hann alls ekki tilbúinn í hvort tveggja,“ sagði Reimar við Akureyri.net

„Við erum sjálfir að leggja út í kostnað til að gera Lundinn, völlinn aftan við stúkuna, hæfan til æfinga, vegna þess að ekki fékkst fjármagn frá bænum til lagfæringa. Menn gleyma því oft þegar talað er um aðstöðumál hjá KA og Þór að svæðið okkar þarf að bera tvo meistaraflokka,“ sagði Reimar.