Fara í efni
KA

Fyrstu Evrópuleikir KA-manna í 17 ár

Patrekur Stefánsson, Nicholas Satchwell og Jónatan Magnússon á flugvellinum í Osló í fyrradag, á leiðinni til Austurríkis.

KA-menn mæta austurríska liðinu HC Fivers í Vínarborg í dag í Evrópubikarkepni karla í handbolta og aftur á sama stað á morgun. Þetta eru fyrstu Evrópuleikir KA síðan í desember 2005.

Síðasti leikur KA í Evrópukeppni var í Búkarest 11. desember 2005. Jónatan Magnússon, núverandi þjálfari KA, var þá leikmaður liðsins, svo og Ragnar Snær Njálsson, einn leikmanna KA í dag. Viðureignin var í 16-liða úrslitum Áskorendakeppni Evrópu, forvera Evrópubikarkeppninnar, og KA-menn urðu að sætta sig við níu marka tap, 30:21, fyrir rúmenska stórliðinu Steaua – Stjörnunni – eftir að hafa unnið fyrri leikinn með eins marks mun, 24:23, í KA-heimilinu.

Í 32-liða úrslitum hafði KA burstað Mamuli Tbilisi frá Georgíu í tveimur leikjum í KA-heimilinu, 45:15 og 50:15.

Vert er að geta þess að rúmenska Stjarnan, Steaua, var með mjög öflugt lið á þessum tíma og sigraði í Áskorendakeppni Evrópu vorið 2006.

KA-strákarnir flugu til Vínarborgar á miðvikudaginn með viðkomu í Osló. Lið HC Fivers er í þriðja sæti austurrísku deildarinnar með 12 stig eftir sjö leiki, hefur aðeins tapað einum leik. Liðið er sagt leika mjög hraðan handknattleik og fróðlegt verður að sjá hvernig KA-mönnum tekst að eiga við það.

Einar Rafn Eiðsson og Guðlaugur Arnarsson annar þjálfara KA á leiðinni til Vínarborgar.