Fara í efni
KA

Fyrsti Evrópuleikur KA-manna í 20 ár

KA-menn fagna eftir að Ásgeir Sigurgeirsson gerði fyrsta markið í sigurleiknum gegn Breiðabliki í undanúrslitum bikarkeppninnar á dögunum. Frá vinstri: Jakob Snær Árnason, Ásgeir Sigurgeirsson, Sveinn Margeir Hauksson, Þorri Mar Þórisson og Dusan Brkovic. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Söguleg stund rennur upp klukkan 18.00 í dag því þá verður flautað til fyrsta Evrópuleiks KA í knattspyrnu í 20 ár. KA-menn taka þá á móti liði Connah's Quay Nomad frá Wales í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu á Framvellinum í Úlfarsárdal í Reykjavík.

Aðstæður á Akureyri bjóða því miður ekki upp á að þar sé leikið í Evrópukeppni og því gripu KA-menn til þess ráðs að fá lánaðan hinn afbragðsgóða leikvang Framara. 

KA ætti að eiga góða möguleika á að slá út þetta velska lið; það er ískalt mat Akureyri.net eftir að hafa kynnt sér mótherja dagsins lítillega.

  • Í fyrsta lagi er keppnistímabil Nomads ekki hafið; undirbúningstímabil stendur yfir og liðið hefur leikið fáeina vináttuleiki undanfarið.
  • Í öðru lagi koma KA-menn vel hvíldir og ættu að vera vel stemmdir; þeir léku síðast fyrir níu dögum og unnu þá afar mikilvægan sigur á Breiðabliki í undanúrslitum bikarkeppninnar. Eftir stopult gengi í sumar voru þau úrslit besti hugsanlegi undirbúningur fyrir leik kvöldsins.
  • Baráttan verður þó án efa erfið og miklu skiptir að KA-strákarnir mæti sérstaklega vel einbeittir til leiks og tilbúnir í alvöru slag.
  • Miðað við æfingaleikina í sumar er leikstíll Nomad dæmigerður fyrir lið í neðri deildum Englands og þá væntanlega efstu deild Wales. Leikmenn liðsins eru margir stórir og líkamlega sterkir; liðið beitir meira löngum sendingum fram völlinn en að boltanum sé spilað í rólegheitum á milli manna aftarlega á vellinum í aðdraganda leifturssókna.
  • Leið 1 verður sem sagt gjarnan fyrir valinu; miðvörður sparkar langt fram, framherji reynir að skalla boltann og síðan er treyst á guð og lukkuna að samherji nái boltanum og fái möguleika á að gera vörn andstæðinganna skráveifu. Næsta víst er að miðverðir KA munu hafa í nógu að snúast og væntanlega þurfa að skalla boltann oftar en þeir eru vanir í leikjum á Íslandsmótinu.
Vitað er að hópur KA-manna heldur suður á bóginn í dag til að styðja sína menn. KA stefnir stuðningsmönnum sínum á veitingastaðinn Sport & Grill í Smáralind þar sem á að hita upp frá kl. 16.00. Byrjað verður að hleypa í stúkuna á Framvellinum kl. 17.00 og leikurinn hefst 18.00 sem fyrr segir.
 
Leikur KA og Connah's Quay Nomad  verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.
 
Seinni leikur liðanna verður ytra eftir viku; heimavöllur velska liðsins í bænum Connah's Quay í Flintskíri, skammt sunnan Liverpool borgar, uppfyllir heldur ekki kröfur Knattspyrnusambands Evrópu þannig að viðureignin fer fram handan landamæranna, í bænum Oswestry á Englandi. Þangað er tæplega klukkustundar akstur í suðurátt frá heimabæ Nomad-liðsins. 
 

Þorvaldur Makan Sigbjörnsson fagnar síðasta marki KA í Evrópukeppni; hann skoraði gegn Sloboda Tuzla frá Bosníu sumarið 2003 á Akureyrarvelli. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

  • Einvígið við Connah’s Quay Nomads er það þriðja sem KA-menn heyja í Evrópukeppni. Fyrst mætti KA búlgarska liðinu CSKA Sofia í Evrópukeppni meistaraliða árið 1990, ári eftir að KA varð Íslandsmeistari.
  • KA vann fyrri leikinn á heimavelli 1:0 og var óheppið að vinna ekki stærra. Eina markið gerði Hafsteinn Jakobsson snemma leiks eftir góðan undirbúning Ormars Örlygssonar. Hafsteinn er faðir Daníels sem nú leikur með KA. CSKA vann seinni leikinn 3:0 á heimavelli og fór áfram.
  • KA lék aftur í Evrópukeppni 2003, í Intertoto keppninni sem svo var kölluð; mætti þá Sloboda Tuzla frá Bosníu, báðir leikir enduðu 1:1, fyrst ytra og svo á Akureyrarvelli 28. júní. Í Akureyrarsól og blíðu var gripið til vítaspyrnukeppni og þar höfðu Bosníumennirnir betur.