Fara í efni
KA

Fyrsta mark Qvist og KA fór í 2. sætið

Takk fyrir sendinguna! Daninn hávaxni, Mikkel Qvist, þakkar Hallgrími Mar Steingrímssyni eftir að sá danski gerði sigurmarkið gegn Stjörnunni í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA sigraði Stjörnuna 2:1 síðdegis á Akureyrarvelli (Greifavellinum) í Pepsi Max deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Það var fyrsta mark danska varnarmannsins Mikkel Qvist á Íslandsmótinu sem skildi liðin að þegar upp var staðið.

KA-menn eru þar með orðnir jafnir Víkingum í 2. sæti deildarinnar með 30 stig að loknum 16 leikjum.

Ásgeir Sigurgeirsson kom KA í 1:0 eftir hálftíma en Stjarnan jafnaði snemma í seinni hálfleik, þegar Hilmar Árni Halldórsson skoraði. Það var svo um það bil 10 mínútum fyrir leikslok að KA fékk aukaspyrnu á vinstri kanti, Hallgrímur Mar Steingrímsson sendi inn á teig og Qvist, lang stærsti maður vallarins, skallaði boltann í markið, tiltölulega óáreittur.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

Sigurmarkið! Það kann ekki góðri lukku að stýra að leyfa Mikkel Qvist að athafna sig að vild í vítateignum. Hér skallar hann boltann í markið í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.