Fara í efni
KA

Fyrsta HM á öldinni án Akureyrings í liðinu

Guðjón Valur Sigurðsson og Arnór Atlason - Rúnar Sigtryggsson - Arnór Þór Gunnarsson - Sverre Andreas Jakobsson.

Heimsmeistaramótið í handbolta hófst í gær og fyrsti leikur Íslands er á dagskrá í kvöld. Flautað verður til leiks Íslands og Portúgal  í Kristianstad klukkan  19.30 og er leikurinn sýndur á RÚV.

HM, sem nú fer fram í Svíþjóð og Póllandi, er 26. stórmótið sem landslið Íslands tekur þátt í á öldinni og 11. heimsmeistaramótið síðan 2001. Ísland hefur verið með á HM í hvert einasta skipti síðan þá, nema 2009.

  • Skemmtileg er sú staðreynd að á fyrstu 24 stórmótum á öldinni var a.m.k. einn uppalinn Akureyringur með liðinu á hverju einasta móti og einn eða fleiri að auki sem leikið hafa með Akureyrarliði einhvern tíma á ferlinum.

Enginn Akureyringur var valinn í hópinn fyrir EM í Ungverjalandi fyrir ári síðan en KA-maðurinn Dagur Gautason, sem þá lék með Stjörnunni, var kallaður til Búdapest ásamt fleirum eftir að landsliðsmennirnir heltust hver af öðrum úr lestinni vegna Covid 19. Dagur kom þó ekkert við sögu á mótinu.

  • Aðeins einn leikmaður sem spilað hefur með Akureyrarliði er nú í landsliðinu; örvhenti hornamaðurinn Óðinn Þór Ríkharðsson sem lék með KA á síðasta keppnistímabili en leikur nú í Sviss. 

Hér að neðan má sjá lista yfir öll þau heimsmeistaramót á öldinni þar sem Íslendingar hafa verið með. Nöfn innfæddra Akureyringa eru feitleitruð en ekki nöfn aðkomumanna sem einhvern tíma hafa leikið með Akureyrarliði.

Seltirningurinn Guðjón Valur Sigurðsson, markahæsti landsliðsmaður sögunnar, lék með KA frá 1998 til 2001 og tók á þeim tíma þátt í HM 2001, en Julian Duranona frá Kúbu, Valsarinn Valdimar Grímsson og Stjörnumaðurinn Patrekur Jóhannesson, voru horfnir á braut þegar að því móti kom.

Hreiðar Levý Guðmundsson, sem hóf landsliðsferilinn 2005, lék með Akureyri þegar hann tók þátt í HM 2007, og Sverre Andreas Jakobsson var leikmaður Akureyrar þegar hann tók þátt stórmóti síðasta sinni, HM 2015.

  • 2001 HM Heiðmar Felixson, Guðjón Valur, Duranona, Patrekur
  • 2003 HM Rúnar Sigtryggsson, Heiðmar Felixson, Guðjón Valur, Patrekur
  • 2005 HM Arnór Atlason, Guðjón Valur, Ingimundur Ingimundarson
  • 2007 HM Arnór Atlason, Sverre Andreas Jakobsson, Guðjón Valur, Hreiðar Levý Guðmundsson
  • 2011 HM Arnór Atlason, Sverre Andreas Jakobsson, Guðjón Valur, Hreiðar Levý, Ingimundur
  • 2013 HM Arnór Þór Gunnarsson, Sverre Andreas Jakobsson, Guðjón Valur
  • 2015 HM Arnór Atlason, Arnór Þór Gunnarsson, Sverre Andreas Jakobsson, Guðjón Valur
  • 2017 HM Arnór Atlason, Arnór Þór Gunnarsson, Guðmundur Hólmar Helgason, Guðjón Valur
  • 2019 HM Arnór Þór Gunnarsson
  • 2021 HM Arnór Þór Gunnarsson, Oddur Gretarsson
  • 2023 HM Óðinn Þór Ríkharðsson

Oddur Gretarsson - Guðmundur Hólmar Helgason - Heiðmar Felixson - Óðinn Þór Ríkharðsson.

_ _ _

Landslið Íslands hefur leikið á öllum stórmótum frá aldamótum nema heimsmeistaramótinu 2009, Ólympíuleikunum 2016 og Ólympíuleikunum 2020 (sem fóru reyndar ekki fram fyrr en 2021).

  • KA-maðurinn Arnór Atlason tók þátt í 13 stórmótum frá 2005 til 2018, missti aðeins af EM 2008 og HM 2013.
  • KA-maðurinn Sverre Andreas Jakobsson var með landsliðinu á 10 stórmótunum frá 2007 til 2015.
  • Þórsarinn Arnór Þór Gunnarsson tók þátt í átta stórmótum frá 2013 til 2021.
  • Þórsarinn Rúnar Sigtryggsson var með á fimm stórmótum frá 2000 til 2004.
  • Þórsarinn Oddur Gretarsson var með á þremur stórmótum frá 2011 til 2021.
  • Þórsarinn Heiðmar Felixson, sem lék einnig með KA, var með á HM 2001 og HM 2003.
  • KA-maðurinn Guðmundur Hólmar Helgason var með landsliðinu á tveimur stórmótum, EM 2016 og HM 2017.
  • KA-maðurinn Heimir Örn Árnason var með landsliðinu á EM 2006.

Vert er að nefna að enginn þessara leikmanna var enn með akureyrska uppeldisfélaginu þegar haldið var á fyrsta stórmótið.