Fara í efni
KA

Fylgir Þór/KA eftir sigrinum á Stjörnunni?

Ísfold Marý Sigtryggsdóttir, Sandra María Jessen og Karen María Sigurgeirsdóttir í leiknum við Stjörnuna í Garðabæ í fyrstu umferð Bestu deildarinnar. Ljósmynd: fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð.

Fyrsti heimaleikur Stelpnanna okkar í Þór/KA í Bestu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu verður í dag. Það er lið Keflavíkur sem kemur í heimsókn og fer viðureignin fram á Greifavelli KA sunnan við KA-heimilið. Flautað verður til leiks klukkan 16.00.

Þór/KA sigraði Stjörnuna 1:0 í Garðabæ í fyrstu umferð mótsins þar sem Sandra María Jessen gerði eina markið. Liðið lék mjög vel á þeim erfiða útivelli en Stjörnunni er spáð mikilli velgengni í sumar.

Keflavík gerði markalaust jafntefli gegn Tindastóli á Sauðárkróki í fyrstu umferð deildarinnar.

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, birti hvatningarpistil til stuðningsmanna á vef liðsins í gær.

„Ég gæti skrifað mjög langan pistil um stelpurnar okkar og hvernig þær hafa vaxið og dafnað sem einstaklingar og ekki síst sem lið. Það er góður andi í hópnum og þær eru staðráðnar að ná þeim markmiðum sem þær hafa sett sér. Ég hef fulla trú á að þær nái þeim. Látum samt hróspistilinn bíða betri tíma. Við ætlum nefnilega að halda okkur á jörðinni fyrir næsta leik,“ skrifaði þjálfarinn.

„Eitt af markmiðum okkar í Þór/KA er að auka jákvæðni, bjartsýni og stemninguna í kringum liðið okkar. Fá fleiri á völlinn og efla stuðninginn við stelpurnar. Við vitum að það hjálpar þegar vel gengur og liðið spilar vel og ekki skemmir ef þær spila skemmtilegan fótbolta.“

Jóhann Kristinn skoraði á allt áhugafólk um fótbolta að fjölmenna á völlinn í dag „og styðja þannig við bakið á stelpunum. Mér finnst þær eiga það skilið. Svo er ég alveg viss um að þetta verður bara fínasta skemmtun í leiðinni. Frídagur, borgarar á grillinu og ungt og spennandi lið sem ætlar sér að gera góða hluti í sumar.“