Fara í efni
KA

„Framlenging“ að hefjast – góð staða KA

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Fimm leikja „framlenging“ Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu, hefst í dag með leik KA og KR á Greifavellinum nýja á KA-svæðinu. Sex efstu liðin mætast innbyrðis og fá KA-menn þrjá heimaleiki en tvo á útivelli.

KA er í góðri stöðu áður en lokaspretturinn hefst. Liðið er jafnt Víkingi að stigum í 2. til 3. sæti og ljóst er að þriðja sætið gefur þátttökurétt í Evrópukeppni á næsta ári fyrst Víkingur varð bikarmeistari í gær.

Valur er í fjórða sæti 11 stigum á eftir Víkingi og KA þannig að margt óvænt þarf að gerast til að KA nái ekki að minnsta kosti þriðja sætinu. Stefnan er þó að sjálfsögðu sett ofar og draumurinn um efsta sæti og Íslandsmeistaratitil er ekki úti þótt mikið þurfti að gerast til að sá möguleiki verði að veruleika. Breiðablik er í efsta sæti, átta stigum á undan KA og Víkingi og fimmtán stig í pottinum. KR er í fimmta sæti með 31 stig.

Fyrri leikur KA og KR á Greifavellinum nýja í sumar var sögulegur. Gestirnir unnu 1:0 þótt KA-menn stjórnuðu ferðinni lengstum. KA vildi fá víti í blálokin þegar Atli Sigurjónsson braut á Gaber Dobrovoljic en ekkert var dæmt. Þá meiddist Ásgeir Sigurgeirsson og var frá um tíma. Leiksins er þó ekki síst minnst fyrir það að Arnar Grétarsson þjálfari KA fékk að líta rauða spjaldið vegna ofsafenginna mótmæla og var í kjölfarið úrskurðaður í fimm leikja bann. Arnar er nú horfinn á braut og Hallgrímur Jónasson tekinn við stjórnvelinum í hans stað.

Erlendur Eiríksson dómari flautar til leiks á Greifavellinum klukkan 15.00.

MYNDIN – Arnór Sveinn Aðalsteinsson braut á Nökkva Þey Þórissyni rétt aftan við miðju þegar ein og hálf mínúta var liðin af fimm mínútna uppbótartíma leiks KA og KR í sumar; Nökkvi var á fleygiferð fram völlinn eftir sendingu Jakobs Snæs og Arnór stöðvaði hann viljandi. Egill Arnar dómari flautaði umsvifalaust en hefði betur beitt hagnaðarreglunni því Hallgrímur Mar fékk boltann á vinstri kantinum og gat haldið sókninni áfram. Arnór Sveinn var ekki aftasti maður KR og fékk því gult spjald fyrir brotið en ekki rautt. 

KA réð ferðinni en KR gerði eina markið

Grátlegt tap fyrir KR – MYNDIR