Fara í efni
KA

Framkvæmdir hefjast á KA-svæðinu í vor

Ingvar Már Gíslason, formaður KA, Eva Hrund Einarsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður frístundaráðs, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, eftir undirritun samningsins í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Akureyrarbær og Knattspyrnufélag Akureyrar hafa gert með sér samkomulag vegna endurnýjunar og uppbyggingar gervigrasvalla og áhorfendastúku á félagssvæði KA við Dalsbraut. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, og Ingvar Már Gíslason, formaður KA, undirrituðu samkomulagið í dag og hefur það þar með tekið gildi.

  • Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við endurnýjun og endurnýtingu gervigrasvalla hefjist vorið 2022.
  • Framkvæmdir við nýjan aðalgervigrasvöll eiga að hefjast í ársbyrjun 2023 og er stefnt að því að hann verði tilbúinn fyrir sumarið.
  • Áætlað er að hefja byggingu stúku í byrjun árs 2024 og er stefnt að því að ljúka verkinu fyrir árslok.

Samkomulagið er gert á grundvelli viljayfirlýsingar sem var undirrituð í janúar síðastliðnum og heimilaði KA að vinna drög að deiliskipulagi sem hefur nú öðlast gildi. Samkomulagið tekur til fyrri áfanga uppbyggingar samkvæmt skipulaginu, það er gervigrasvallar og 1.000 sæta áhorfendastúku sem og jarðvegsvinnu vegna félagsaðstöðu. Auk þess verður yfirlag gervigrasvallar frá 2013 endurnýjað og hið gamla endurnýtt á suðvesturhluta svæðisins.

Akureyrarvöllur fær annað hlutverk

Í tilkynningu frá Akureyrarbær segir að markmið samkomulagsins sé annars vegar að efla og bæta íþróttaaðstöðu KA í samræmi við skýrslu starfshóps um nýframkvæmdir íþróttamannvirkja og hins vegar að færa knattspyrnutengda starfsemi af Akureyrarvelli svo Akureyrarbær geti hafið vinnu við að endurskipuleggja svæðið undir aðra starfsemi.

Akureyrarvöllur er, samkvæmt gildandi aðalskipulagi, skilgreindur sem þróunarsvæði og er stefnt að uppbyggingu þar í náinni framtíð. „Svæðið býður upp á spennandi möguleika og er einnig áætlað að uppbygging þar skili Akureyrarbæ umtalsverðum tekjum í formi gatnagerðar- og byggingarréttargjalda. Völlurinn verður notaður til knattspyrnuiðkunar út sumarið 2022,“ segir í tilkynningu frá Akureyrarbæ.

Akureyrarbær mun samkvæmt samkomulaginu kosta og sjá um framkvæmdir á KA-svæðinu. Áætluð framlög bæjarins nema í heild 820 milljónum króna og skiptast þau á næstu þrjú ár.