Fara í efni
KA

Frækinn sigur KA í æsilegum toppslag

Mynd af heimasíðu KA

Kvennalið KA vann frækinn sigur á Aftureldingu í gærkvöldi, í toppslag Mizunodeildar kvenna í blaki. Liðin tvö börðust um deildarmeistaratitilinn á síðasta ári, þar sem KA hafði betur, en Afturelding vann fyrri leik liðanna í vetur í KA-heimilinu og fór sú viðureign í oddahrinu. Því var næsta víst að hart yrði barist í Mosfellsbænum í gærkvöldi. Og sú varð heldur betur raunin!

Heimamenn unnu fyrstu hrinu 26:24, eftir að KA komst í 24:22. Æsileg barátta þar og liðsmenn Aftureldingar héldu sínu striki í annarri hrinu og unnu 25:19. Útlitið því ekki bjart fyrir norðankonur.

Þriðja hrinan var „stál í stál,“ eins og sagði á heimasíðu KA í gærkvöldi. Afturelding náði góðri forystu, 20:15 og 23:18 og útlitið ansi svart fyrir KA. Afturelding komst svo í 24:20 og vantaði því aðeins eitt stig til að tryggja sér sigur í leiknum, í aðeins þremur hrinum, en eftir ótrúlegan viðsnúning voru það KA-stelpurnar sem fögnuðu; gerðu sex stig í röð og unnu hrinuna 26:24.

Afturelding komst í 6:2 snemma í fjórðu hrinu áður en KA fór í gang, náðu góðri forystu og unnu 25:19. Síðan segir á heimasíðu KA: „Spennan í oddahrinunni var magnþrungin og var jafnt á öllum tölum upp í 9-9 er Afturelding komst í 12-9 og enn var því staðan orðin erfið fyrir okkar lið. En karakterinn kom enn og aftur fram í okkar magnaða liði sem gerði næstu sex stig og hrifsaði þar með sigurinn 12-15 til sín og stórkostleg endurkoma þar með fullkomnuð!“

Þar segir að lokum: „Þetta var fyrsta tap Aftureldingar í vetur og frábær leið til að kvitta fyrir tapið gegn þeim á heimavelli í haust. Það var æðislegt að fylgjast með baráttunni og stemningunni hjá stelpunum og vonandi að þær nái að halda þessu áfram í næstu leikjum. Það stefnir allt í svakalega toppbaráttu milli KA, Aftureldingar og HK og ljóst að hvert einasta stig mun telja ansi mikið þegar upp verður staðið.“