Fara í efni
KA

Frækinn sigur á efsta liðinu og KA í 3. sætið

KA-menn gáfu loksins fagnað með áhangendum sínum í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA sigraði Hauka 30:28 í Olísdeild Íslandsmótsins í handbolta í KA-heimilinu í kvöld og skaust þar með upp í þriðja sætið. Haukar eru sem fyrr á toppnum með 17 stig, FH er með 16, KA 14, Valur og Afturelding með 13.

KA-menn byrjuðu frábærlega og voru komnir í 7:1 eftir 10 mínútur. Haukur nálguðust hægt og rólega og staðan var 16:14 í hálfleik; Haukar gátu meira að segja minnkað muninn niður í eitt mark en Orri Freyr Þorkelsson skaut í þverslá úr víti úr síðasta skoti fyrri háfleiks.

Sóknarleikur toppliðsins var ótrúlega slakur í fyrri hálfleik en aftur á móti mjög góður lengst af í seinni hálfleik, Haukar komust þó aldrei nær ótrúlega seigum heimamönnum en svo að einu marki munaði og KA-menn bættu svo við í lokin. Þeir hafa sýnt mikla baráttugleði í síðustu leikjum og héldu sínu striki í þeim efnum. Sóknarleikurinn var ekki allt upp á það besta, en flestir voru öflugir í vörn og Nicholas Satchwell frábær í markinu. Sá færeyski varði 16 skot, og Árni Bragi Eyjólfsson afar öflugur í sókninni - gerði 10 mörk, þar af tvö úr víti.

Mörk KA: Árni Bragi Eyjólfsson 10/2, Jóhann Geir Sævarsson 6, Patrekur Stefánsson 5, Áki Egilsnes 4, Einar Birgir Stefánsson 2, Jón Heiðar Sigurðsson 2 og Allan Norðberg. 

Nicholas Satchwell sæll og glaður eftir að hann varði eitt af 16 skotum í leiknum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.