Fara í efni
KA

Frábært mark Karenar tryggði þrjú stig

Glæsilegu sigurmarki fagnað! Colleen Kennedy, Karen María Sigurgeirsdóttir, Margrét Árnadóttir og Hulda Karen Ingvarsdóttir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þór/KA vann gríðarlega mikilvægan sigur á Tindastóli í kvöld, 1:0, í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, Pepsi Max deildinni. Karen María Sigurgeirsdóttir gerði eina markið rétt fyrir miðjan fyrri hálfleik, með glæsilegu skoti utan teigs.

Þór/KA komst með sigrinum upp í 6. sæti, er nú með 18 stig eftir 15 leiki. Tindastóll er hins vegar kominn niður í neðsta sætið, er með 11 stig eftir 14 leiki. Fylkir hefur 12 stig að loknum 13 leikjum og Keflavík, sem sigraði ÍBV í Eyjum í kvöld, fór úr neðsta sæti upp um tvö, hefur 12 stig eftir 14 leiki.

Leikurinn var tíðindalítill framan af enda mikið í húfi og augljóst að hvorugt liðið vildi taka mikla áhættu. Eftir að heimamenn brutu ísínn varð breyting þar á.

  • 1:0 (19. mínúta) Karen María Sigurgeirsdóttir fékk boltann á miðjum vallarhelmingi Tindastóls, lék í átt að vítateignum og fór laglega framhjá varnarmanni áður hún lét vaða á markið, nokkrum metrum fyrir utan teig. Skotið var gott og boltinn skaust í vinstra markhornið niðri án þess að góður markvörður Tindastóls, Amber Kristin Michel, kæmi vörnum við. Afar vel að verki staðið hjá Karen Maríu.

Eftir markið tóku leikmenn Þórs/KA öll völd á vellinum og hefðu getað bætt við mörkum, helst þegar Shaina Ashouri skaut framhjá úr góðu færi og Amber varði frábærlega fastan skalla Örnu Sifjar Ásgrímsdóttur eftir horn.

Stelpurnar okkar náðu ekki að halda sínu striki í seinni hálfleiknum, gestirnir ógnuðu marki þeirra þó ekki verulega fyrr en undir lokin að Murielle Tiernan fékk sannkallað dauðafæri. Eftir aukaspyrnu barst boltinn til hennar á markteignum en hún þrumaði hátt fyrir markið. Þar sluppu heimamenn með skrekkinn.

Rétt fyrir leikslok fékk Þór/KA svo gullið tækifæri til að bæta við marki þegar brotið var á hinni eldfljótu Colleen Kennedy innan teigs og vítaspyrna dæmd. Shaina Ashouri tók spyrnuna en þrumaði í þverslá.

Þetta var fyrsti sigur Þórs/KA á heimavelli í sumar, ótrúlegt en satt - í áttundu tilraun. Þungu fargi var því létt af öllum, bæði af þeim sökum og vegna þess hve stigin þrjú eru dýrmæt.

Stelpurnar í Þór/KA eiga þrjá leiki eftir í deildinni, fyrsta gegn Þrótti á útivelli, þá gegn Fylki á útivelli og loks heima gegn liði Keflvíkingum, í lokaumferð deildarinnar, sunnudaginn 12. september.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

Smellið hér til að sjá stöðuna í deildinni.

Varnarlína Þórs/KA sem hélt gestunum að miklu leyti í skefjum; Arna Sif Ásgrímsdóttir, Steingerður Snorradóttir, Hulda Björg Hannesdóttir og Hulda Karen Ingvarsdóttir. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Shaina Ashouri þrumar boltanum í þverslá Tindastólsmarksins af vítapunktinum þegar skammt var eftir af leiknum. 

Leikmenn Þórs/KA voru kampakátir, eins og nærri má geta, þegar þeir þökkuðu áhorfendum fyrir stuðninginn í kvöld.