Fara í efni
KA

Frábært! KA áfram og mætir Club Brugge

Jóan Símun Edmundsson kom KA í góða stöðu þegar hann gerði fyrsta mark sitt fyrir félagið í fyrri hálfleik í kvöld. Hér er hann í leiknum gegn Dundalk í síðustu viku. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA gerði 2:2 jafntefli við írska liðið Dundalk á útivelli í kvöld og er komið í þriðju umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu. KA mætir belgíska liðinu Club Brugge í þriðju umferðinni og verður fyrri viðureign liðanna í Belgíu strax í næstu viku.

KA-menn unnu fyrri leikinn 3:1 í síðustu viku og komust í frábæra stöðu eftir aðeins stundarfjórðung í kvöld þegar Færeyingurinn Jóan Símund Edmundsson skoraði. Eftir útspark Jajalo markvarðar fékk Jóan boltann inn fyrir vörnina, lagði hann fyrir sig af yfirvegun og skoraði af miklu öryggi. KA þá komið 4:1 yfir samanlagt!

Írarn­ir sóttu af krafti eftir þetta eins og vænta mátti og eftir tæpan hálftíma fékk fékk Daniel Kelly dauðafæri en skaut fram­hjá marki KA. Dundalk tókst síðan að jafna skömmu síðar þegar John Martin skoraði með þrumuskalla eftir góða sendingu af vinstri kanti.

Staðan var 1:1 í hálfleik, Írarnir voru áfram mikið með boltann í seinni hálfleiknum en KA-menn léku skynsamlega, eins og fyrir viku og gáfu ekki mörg færi á sér. Voru meira að segja nálægt því að komast yfir þegar Jakob Snær Árnason, sem nýlega var kominn inn á, þrumaði að marki af stuttu færi, boltinn fór í varnarmann og small í þverslánni áður en hann fór aftur fyrir endamörk. Nokkru seinni sluppu KA-menn síðan með skrekkinn þegar miðherjinn John Martin hamraði boltann í þverslána hinum megin.

Það var svo á 81. mínútu sem Hallgrímur Mar Steingrímsson gulltryggði sæti KA í þriðju umferðinni. Hann tók hornspyrnu frá hægri, eftir smá klafs fékk Ívar Örn Árnason boltann í miðjum teig og hugðist skjóta á markið þegar brotið var á honum og austurrískur dómari dæmdi umsvifalaust vítspyrnu. Hallgrímur Mar  skoraði af miklu öryggi.

Dundalk jafnaði á 89. mín­útu þegar Greg­ory Slog­gett skallaði í netið af markteig eftir hornspyrnu en vonin var löngu úti fyrir Írana. KA-menn fögnuðu jafnteflinu og fræknum árangri. Þeir unnu einvígið 5:3.

Á vef UEFA - hér - má sjá liðsuppstillingu, textalýsingu og ýmsar upplýsingar um leikinn.