Fara í efni
KA

Frábær sigur á Val í Reykjavík!

Unnur Ómarsdóttir, til vinstri, gerði fimm mörk í dag og Martha Hermannsdóttir 11. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA/Þór varð fyrsta liðið til að leggja Val að velli á Íslandsmótinu í handbolta í vetur. Stelpurnar okkar, Íslands- og bikarmeistararnir, sigruðu 28:26 í æsispennandi leik síðdegis á heimavelli Vals að Hlíðarenda.

KA/Þór byrjaði betur og komst snemma þremur mörkum yfir, 5:2 en Valsarar jöfnuðu 6:6 og fyrri hálfleikurinn var hnífjafn þar til í blálokin; KA/Þór gerði þrjú síðustu mörkin og hafði eins marks forskot í hálfleik, 15:14. Markvörðurinn, Matea Lonac, kórónaði frábæran lokasprett með því að gera 15. markið yfir endilegan völlinn í tómt mark Valsmanna.

Unnur Ómarsdóttir kom KA/Þór í 16:14 í byrjun seinni hálfleiks og Stelpurnar okkar höfðu þar með gert fjögur mörk í röð.

Spennan var rafmögnuð allan seinni hálfleikinn en þegar um sex mínútur voru eftir komst Valur tveimur mörkum yfir, 26:24, og virtist stefna í sjöunda sigur liðsins í jafn mörgum leikjum. Þá tóku gestirnir hins vegar til sinna ráða og skelltu í lás; Akureyrarliðið var þekkt fyrir frábæran varnarleik í fyrravetur og sá illkleifi múr beið skyndilega sóknarmanna Vals. Hann reyndist meira að segja ókleifur að þessu sinni því Valsmenn skoruðu ekki síðustu sex mínúturnar. Íslands- og bikarmeistararnir gerðu fjögur síðustu mörk leiksins og fögnuðu glæsilegum sigri.

Martha Hermannsdóttir minnkaði muninn, 26:25, úr víti sem dæmt var fyrir brot á Rut Jónsdóttur. Martha jafnaði svo, aftur af vítalínunni, eftir að brotið var á Önnu Þyrí Halldórsdóttur, Aldís Ásta kom Íslands- og bikarmeisturunum yfir, 27:26, á næsta síðustu mínútunni og Martha gulltryggði sigurinn, 28:26 – úr víti að sjálfsögðu – eftir að brotið var á hinni eitilhörðu Önnu Þyrí.

Valur er á toppnum með 12 stig en bæði Fram og KA/Þór eru með 11 stig. Öll lið eru búin með sjö leiki.

Mörk KA/Þórs: Martha Hermannsdóttir 11 (8 víti – 100% nýting af vítalínunni), Aldís Ásta Heimisdóttir 6, Unnur Ómarsdóttir 5, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 3, Rakel Sara Elvarsdóttir 1, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 1 og Matea Lonac 1.

Matea Lonac varði 14 skot (2 víti)

Smelltu hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum.