Fara í efni
KA

Frábær leikur KA og Víkings – MYNDIR

Sveinn Margeir Hauksson og Pablo Punyed á Greifavellinum í dag. Sveinn gerði fyrra mark KA í leiknum og Pablo lagði upp fyrsta mark Víkings. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA tapaði 3:2 fyrir Víkingi í dag á heimavelli, í stórskemmtilegum toppbaráttuslag Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu.

Eftir að Víkingar gerðu fyrsta markið komst KA í 2:1 en gestirnir gerðu tvö síðustu mörkin – sigurmarkið í þann mund er hefðbundnum leiktíma lauk, fjórum mínútum áður en lokaflautið gall. Markið var afar klaufalegt frá sjónarhóli KA-manna og vonbrigðin gríðarleg, enda virtust þeir nær því en Íslandsmeistarar að knýja fram sigur.

Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði einu sinni fyrir KA í dag, hefur þar með gert 17 mörk í deildinni og er lang markahæstur. 

Bæði lið léku að mörgu leyti vel í dag, fengu prýðis færi til að gera fleiri mörk og aðeins fáein smáatriði urðu til þess að Víkingar fögnuðu þremur stigum en ekki KA-menn.

KA er áfram í öðru sæti deildarinnar með 36 stig eftir 19 leiki og Víkingur 35 stig að loknum 17 leikjum. Breiðablik vann Leikni 4:0 í kvöld og er komið með 45 stig.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

_ _ _

VÍKINGAR BRJÓTA ÍSINN
Erlingur Agnarsson skoraði fyrir Víking á 19. mínútu með glæsilegu marki eftir góða fyrirgjöf Pablo Punyeds frá vinstri. Erling var dauðafrír í teignum, henti sér fram og skallaði boltann með tilþrifum í netið.

_ _ _

BRAUT SVEINN AF SÉR?
Eftir snögga sókn sendi bakvörðurinn Van Den Bogaert inn á teig af vinstri kantinum og Sveinn Margeir Hauksson skallaði boltann í markið. Erlendur Eiríksson dómari hafði hins vegar blásið í flautu sína áður en Sveinn skallaði, en menn voru ekki á eitt sáttir við ákvörðun dómarans. Ekkert skal hér fullyrt í því sambandi.

_ _ _

KA JAFNAR
Sveinn Margeir kom boltanum aftur í markið á 38. mín. og þá var ekkert athugavert. Bakvörðurinn ungi, Logi Tómasson hugðist láta boltann fara aftur fyrir endamörk en reynsluboltinn Steinþór Freyr Þorsteinsson sótti að Loga og náði að pota boltanum fyrir markið þar sem Sveinn skoraði með þrumuskoti.

_ _ _

17. MARK NÖKKVA!
KA náði forystu á 67. mínútu með stórkostlegu marki Nökkva Þeys Þórissonar - 17. marki hans í sumar! Hann náði boltanum af leikmanni Víkings úti á velli, lék fram vinstri kantinn og upp að vítateig þar sem hann lét vaða á markið með hægri fæti og boltinn söng efst í horninu fjær!

_ _ _

VÍKINGAR JAFNA
KA-menn sváfu illa á verðinum á 76. mín. þegar Logi Tómasson tók hornspyrnu frá hægri og Júlíus Magnússon skallaði í markið, nær algjörlega óvaldaður í grennd við nærstöngina.

_ _ _

KLAUFALEGT SIGURMARK
Það var Birnir Snær Ingason sem tryggði Víkingum sigur með marki þegar hefðbundinn leiktími var að renna út. Hann fékk boltann rétt utan við vítateiginn miðjan og skaut að marki, boltinn snerti varnarmann og breytti örlítið um stefnu en svo virtist þó sem Jajalo markvörður myndi verja. Hann hafði hönd á boltanum sem lak þó inn í markið.