Fara í efni
KA

Frábær endurkoma Þórs/KA gegn Stjörnunni

Iðunn Rán Gunnarsdóttir himinlifandi - og hálf undrandi að því er virðist - eftir að hún jafnaði metin undir lokin kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA og Stjarnan gerðu ótrúlegt 3:3 jafntefli í 10. umferð Bestu deildar kvenna, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu, á Þórsvelli nú í dag. Stjörnukonur komust í 3:0 forystu í fyrri hálfleik en þrjú mörk frá heimaliðinu í þeim seinni urðu til þess að liðin þurftu að sættast á skiptan hlut.

Það voru aðeins tvær mínútur liðnar af leiknum þegar fyrsta markið leit dagsins ljós. Snædís María Jörundsdóttir skoraði þá með skalla af stuttu færi eftir sendingu frá Sædísi Heiðarsdóttur. 

Á 12. mínútu bætti Heiða Ragney Viðarsdóttir, fyrrum leikmaður Þórs/KA, við öðru marki gestanna. Sædís Rún tók þá hornspyrnu, Melissa fór út í teig og reyndi að ná til boltans en tókst ekki. Heiða Ragney kom þá með hlaup á fjærstöngina og renndi boltanum í netið. 

Jasmín Erla Ingadóttir bætti við þriðja marki Stjörnunnar á 37. mínútu leiksins og staðan orðin virkilega slæm fyrir Þór/KA. Staðan var 3:0 fyrir Stjörnukonur þegar flautað var til hálfleiks. Spilamennska Þórs/KA liðsins í fyrri hálfleik var vægast sagt slæm og ekkert sem benti til annars en að Stjörnuliði myndi sigla sigrinum þægilega heim.

Leikmenn Þórs/KA fagna innilega eftir að Iðunn Rán Gunnarsdóttir jafnaði metin á síðustu mínútu hefðbundins leiktíma. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA fékk þó líflínu í upphafi síðari hálfleiks þegar Hulda Ósk Jónsdóttir gerði vel í að keyra inn á teig Stjörnunnar. Þar var hún felld og vítaspyrna réttilega dæmd. Hulda Björg Hannesdóttir fór á vítapunktinn og skoraði. Staðan orðin 3:1 og um 40 mínútur eftir af seinni hálfleik.

Á 74. mínútu minnkaði Karen María Sigurgeirsdóttir muninn í 3:2 eftir góðan undirbúning frá Karlottu Andradóttur sem hafði komið inn á sem varamaður í seinni hálfleiknum. Við þetta mark óx sóknarþungi heimaliðsins á meðan Stjörnukonur lágu til baka og freistuðu þess að halda fengnum hlut. 

Það var svo á 90. mínútu sem jöfnunarmark leiksins kom. Eftir klafs í teignum eftir hornspyrnu barst boltinn á varamanninn Iðunni Rán Gunnarsdóttur. Hún átti fast skot sem hafnaði í stönginni en fór í bakið á Auði Scheving og í netið. Þetta reyndist síðasta mark leiksins.

Lokatölur á Þórsvelli því 3:3 og ótrúleg endurkoma Þór/KA staðreynd. 

Nánar verður fjallað um leikinn í kvöld.