Fara í efni
KA

Frábær árangur 3. flokks Þórs/KA!

Íslandsmeistararnir í dag. Fremri röð frá vinstri: Helga Dís Hafsteinsdóttir, Kolfinna Eik Elínardóttir, Tinna Sverrisdóttir, Karlotta Björk Andradóttir, Hildur Anna Birgisdóttir og Arna Rut Orradóttir. Aftari röð frá vinstri: Pétur Heiðar Kristjánsson, Krista Dís Kristinsdóttir, Emelía Ósk Kruger, Bríet Jóhannsdóttir, Amalía Árnadóttir, Anna Guðný Sveinsdóttir, Ólína Helga Sigþórsdóttir, Júlía Margrét Sveinsdóttir og Birkir Hermann Björgvinsson. Ljósmynd: Erla Ormarsdóttir

Stelpurnar í 3. flokki Þórs/KA í knattspyrnu tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í dag með 4:1 sigri á Haukum/KÁ í Hafnarfirði. Fyrir stuttu urðu stelpurnar bikarmeistarar svo óhætt er að fullyrða Þór/KA eigi besta lið landsins!

Ekki nóg með það; í dag gerði Þór/KA 2, sem einnig tók þátt í A-liðakeppninni, sér lítið fyrir og vann B-riðil, og verður því í A-riðli í fyrstu keppnislotu af þremur næsta sumar. Þriðja lið Þórs/KA í 3. flokki tók þátt í B-liðakeppninni og nældi þar í silfurverðlaun.

Innilega til hamingju með árangurinn í sumar, stelpur!

Í flottri umfjöllun á vef Þórs/KA segir að dramatíkin hafi tekið völdin í dag þegar síðustu leikirnir í A-riðli Íslandsmótsins fóru fram og það er sannarlega ekki orðum aukið. „Þór/KA mætti Haukum/KÁ í Hafnarfirði og þurfti að vinna leikinn, auk þess að treysta á að Stjarnan/Álftanes næði að minnsta kosti jafntefli gegn FH/ÍH. Þetta dæmi gekk fullkomlega upp. Stjarnan/Álftanes og FH/ÍH gerðu 3-3 jafntefli á sama tíma og Þór/KA vann sinn leik í Hafnarfirðinum.“

Nýtt fyrirkomulag var reynt í þessum aldursflokki í sumar og staðan fyrir leiki dagsins var sannarlega áhugaverð, eins og nefnt er á vef Þórs/KA:

„Það sem er áhugavert við stöðuna fyrir þessa leiki og svo hvernig mótið endar er að þetta nýja keppnisfyrirkomulag bauð upp á að lið sem hafði fyrir leikina í dag unnið 17 leiki, gert eitt jafntefli og tapað einum leik gat mögulega misst af titlinum og lið sem hafði unnið tíu leiki, gert eitt jafntefli og tapað sjö leikjum hirt hann. Þór/KA hafði nefnilega unnið fyrstu tvær loturnar með nokkrum yfirburðum og ekki tapað leik – en umbunin fyrir það var einungis fleiri heimaleikir í lotu 2 og 3. Í þriðju lotu hófu öll liðin leik með ekkert stig og þegar Þór/KA mætti FH/ÍH í Hafnarfirðinum höfðu Hafnfirðingar sigur. Þetta eina tap varð næstum til þess að okkar stelpur misstu af titlinum, sem hefði verið mjög sárt í ljósi þess að hafa aðeins tapað þessum eina leik. En fótboltinn er óútreiknanlegur, Þór/KA er Íslandsmeistari í 3. flokki! Þess er skemmst að minnast að liðið varð einnig bikarmeistari á dögunum – Þór/KA vinnur tvöfalt í 3. flokki.“

Lokastaðan í A-riðli er því þannig að Þór/KA vinnur Íslandsmeistaratitilinn, með 18 stig, en FH/ÍH endar í 2. sæti með 17 stig.

  • Hér má sjá umfjöllun Akureyri.net þegar stelpurnar urðu bikarmeistarar um daginn:

Hér eru úrslit allra leikja sumarsins og stöðutöflu eftir hvern hluta mótsins:

Íslandsmót lota 1

Íslandsmót lota 2

Íslandsmót lota 3

Nánar um frábæran árangur 3. flokks má sjá hér á vef Þórs/KA