Fara í efni
KA

Fór út að ganga - konan hringdi svo grátandi!

Magnaður! Erlingur með Íslandsbikarinn í knattspyrnu 1989 og Íslandsbikarinn í handbolta 1997.

Erlingur Kristjánsson hefur marga fjöruna sopið á íþróttaferlinum. Þessi mikli afreksmaður er nú formaður kvennaráðs KA/Þórs í handbolta og er að vonum gríðarlega stoltur af liðinu, sem varð Íslandsmeistari á sunnudaginn. Erlingur fylgdist hins vegar ekki með leiknum í sjónvarpi – hafði ekki taugar í það!

Erlingur afrekaði á sínum tíma að verða Íslandsmeistari sem fyrirliði KA, bæði í knattspyrnu og handknattleik. Hann tók við Íslandsbikarnum í fyrsta og eina skipti sem KA varð meistari í knattspyrnu, haustið 1989, og aftur þegar félagið varð meistari í handknattleik í fyrra skiptið, vorið 1997.

Eftir að Erlingur lagði skóna á hilluna hefur hann verið í ýmsum hlutverkum í félaginu, meðal annars þjálfað og setið í stjórnum. Í mörg ár hefur hann tengst handbolta kvenna, allar götur síðan Arna Valgerður dóttir hans og Karitasar Jónsdóttur, eiginkonu hans, var að stíga fyrstu skrefin á þeim vettvangi. Hún er einn Íslandsmeistaranna, þótti gríðarlegt efni á sínum tíma en slæm meiðsli hafa komið í veg fyrir að ferillinn yrði á þann veg sem efni stóðu til.

Þessi þrautreyndi íþróttamaður, meistari og forystumaður treysti sér sem sagt ekki til að sitja við sjónvarpið á sunnudaginn. „Ég fór út í göngutúr og vissi ekkert fyrr en konan mín hringdi, grátandi af gleði – KA/Þór varð orðið Íslandsmeistari og ég gat drifið mig heim!“ segir Erlingur við Akureyri.net.