Fara í efni
KA

Föðurland, regnhlíf og rétta hugarfarið

Atli Freyr Gunnarsson er þriggja barna fótboltapabbi. Eldri sonurinn var að keppa á mótinu fyrir Aftureldingu en sá yngri og dóttirin fundu sér eitthvað til dundurs á áhorfendasvæðinu eða hvíldu sig undir regnhlífum. Myndir: Snæfríður Ingadóttir

Veðurguðirnir hafa ekki tekið vel á móti mótsgestum á N1 móti KA í knattspyrnu í ár. Þrátt fyrir kulda og vætu hefur stemningin á vellinum þó verið góð en rúmlega 2000 strákar taka þátt í mótinu í ár. Akureyri.net tók stöðuna á nokkrum fótboltaforeldrum sem reyndu að halda á sér hita á hliðarlínunni í dag.

Stuðningsmenn Breiðabliks þær Eva Björk og Ingibjörg eru vel sjóaðar í fótboltamótum og segja ullarsokka, föðurland og te á brúsa ómissandi á hliðarlínuna.

Föðurlandið og ullarsokkarnir ómissandi

„Veðrið er ekkert spes en maður er bara vel klæddur. Strákunum er alveg drullusama, þeir kvarta aldrei. Það er frekar að veðrið hafi áhrif á foreldrana,“ segir Ingibjörg Arnljótsdóttir sem mætt er á mótið til hvetja fótboltadrengi Breiðabliks. Eva Björk Björnsdóttir tekur undir þetta og segir stemminguna á mótinu í ár vera góða, strákarnir séu peppaðir og þeim finnist alltaf jafn gaman að koma norður. „Við tökum allt frá stuttbuxunum yfir í dúnúlpuna með, það er bara „standard“ á fótboltamótum,“ segir hún íklædd síðu vatteruðu vesti og síðri úlpu utan yfir. Báðar eru þær miklir reynsluboltar þegar fótboltamót eru annars vegar og segja að föðurland og ullarsokkar séu ómissandi í svona veðri og þá kemur dúnúlpan líka sterk inn. En hvernig er að halda í smartheitin þegar það þarf að dúða sig svona mikið á völlinn? „Við erum alltaf smart eða það höldum við,“ segja þær og hlægja.

Sáttur ef það rignir ekki

Atli Freyr Gunnarsson er fótboltapabbi með þrjú börn í boltanum. Hann var mættur norður með alla fjölskylduna í fyrsta sinn á N1 mót en elsti sonurinn er að keppa fyrir Aftureldingu. „Það er svolítið kalt í dag, það var betra í gær en við erum bara sátt svo lengi sem það rignir ekki. Það er búið að dropa aðeins í dag,“ segir Atli sem var með regnhlífarnar meðferðis og var búinn að búa til skjól úr þeim fyrir yngstu börnin. Aðspurður að því hvað sé erfiðast við svona fótboltamót þá nefnir hann skipulagninguna. „Það getur verið erfitt að skipuleggja dagskrá á milli leikja, sem sagt að hafa ofan af fyrir liðinu þegar ekki er verið að keppa.“

Agnar Snædal í fjórum lögum að ofan tilbúinn að takast á við sigra, tap og jafntefli hjá Þrótti.

Fótboltamót og köfun

Margir mótsgestir gista á tjaldsvæðinu á meðan mótið fer fram, meðal annars Agnar Snædal, foreldri barns í Þrótti. Agnar er vanur útilegum og því vel búinn. Hann sat á áhorfendabekknum í fjórum lögum að ofan, tilbúinn að takast á við sigra, tap og jafntefli hjá sínu liði, sem og norðlenska „regningu“. „Þetta er fyrsta KA mótið mitt og mér líst ágætlega á þetta. Mér finnst reyndar vera svolítið mörg lið hérna. Kannski ætti bara að hafa eldra árið því þegar verið er að spila þá koma langar eyður á milli leikja. En annars er bara ágætlega haldið utan um þetta.“ Agnar kom norður á mánudag og ætlar að nýta ferðina í fleira en fótboltamótið. „Ég ætla að reyna að komast í það að kafa í Strýturnar ef skyggnið leyfir. Ég tók græjurnar með mér.“

Hjónin Jóhann og Ragnhildur úr Húnabyggð voru mætt á völlinn með regnhlífar til að hlífa sér fyrir dropunum.

Týpískt íslenskt sumarveður

Hjónin Jóhann G. Pálsson og Ragnhildur Haraldsdóttir gista líka á tjaldstæðinu en sonur þeirra er að keppa á mótinu með knattspyrnufélaginu Hvöt úr Húnabyggð. Með í för er líka dóttir og hundur.

„Stemmingin á tjaldstæðinu er mjög góð. Það er náttúrulega alveg stappað þar, en mér sýnist fólk bara vera vel útbúið og til í þetta. Þetta er náttúrulega bara týpískt íslenskt sumarveður,“ segir Ragnhildur. Fjölskyldan gistir í fellihýsi og notar hitablásara til að þurrka blaut föt. Aðspurð að því hvort ekki sé erfiðara að halda stemningunni uppi þegar það er svona þungt yfir segja þau svo ekki vera. „Nei, þetta er bara spurning um hugarfar. Við erum Íslendingar og öllu vön. Við erum nýbúin að ganga í gegnum mikið kuldahret á Norðurlandi þar sem snjóaði á ungviði, þannig að þetta er ekki neitt,“ segir Ragnhildur.

- Eruð þið jafnvel betur búin til þess að takast á við þetta veður en Sunnlendingarnir sem mættir eru á mótið?

„Þeir halda náttúrulega alltaf að þeir séu að koma í Kanaríveður þegar þeir koma norður,“ segir Jóhann og hlær, en hann var reyndar sjálfur nýfarinn úr stuttbuxunum þegar blaðamaður mætti á völlinn.